Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[19:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágætisumræðu hér við þessa munnlegu skýrslu um stöðu efnahagsmála. Ég verð nú að játa það að á köflum þá rifjaðist upp fyrir mér gamalt spakmæli sem segir að fyrir hverja þúsund sem slá í greinar hins illa er aðeins einn sem ræðst á ræturnar. Þetta segi ég vegna þess að ég hef heyrt mikið talað um slæmar afleiðingar verðbólgu hér í dag en ég hef heyrt miklu minna rætt um raunverulegar aðgerðir sem geta gagnast í baráttunni gegn verðbólgunni. Ég heyri ræður eins og þá sem var hér síðast flutt um það að allt sé þetta Sjálfstæðisflokknum að kenna. Þingmenn Viðreisnar þreytast ekki á að rifja upp síðustu kosningabaráttu sem þeir virðast enn vera sleikja sárin eftir og eru bara fastir þar, á árinu 2021 heyrist mér, og (Gripið fram í.) kannast ekki við að það eru ákveðin hlutverkaskipti í samfélaginu í efnahagsmálum og það þurfa allir að leggja sitt af mörkum.

Þegar við skoðum stöðu ríkisfjármálanna þá er engum blöðum um það að fletta að staða ríkisfjármálanna á Íslandi er sterk. Það er alveg sama hvaða mælikvarða við notum. Skuldahlutföllin eru auðvitað ágætismælikvarði. Það er ekki tilviljun að við fengum nýlega jákvæðar horfur á lánshæfismat ríkisins. Kjör ríkisins á innlendum markaði hafa verið ágæt og lánstraustið þar með. Það endurspeglast á markaði. Við erum með fjármálaáætlun um að ná heildarjöfnuði á næstu árum og erum að koma af miklum krafti út úr heimsfaraldrinum. Við erum með nýlegt álit frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að afkoma ríkisfjármálanna á þessu ári sé að styðja ágætlega við markmið um að draga úr verðbólgu.

Seðlabankinn verður síðan að teljast bera mesta ábyrgð á verðstöðugleika í landinu. Það er hans meginhlutverk að gæta að verðgildi peninganna. Bankinn hefur þar með sömuleiðis töluverða ábyrgð þegar kemur að því að stilla af væntingar um þróun verðbólgunnar en hann getur auðvitað ekki sveiflað neinum töfrasprota og framkallað niðurstöðu sem er æskileg. Það þarf margt að spila með. Hér virðist vera mjög viðkvæmt umræðuefni að ræða um þróun launa í landinu, þ.e. þá staðreynd að laun eru að jafnaði að hækka mun meira að nafnvirði á Íslandi en annars staðar. Þetta er ofsalega viðkvæmt mál. Þá fara menn að tala um að fólk þurfi jú að geta náð endum saman og eiga til hnífs og skeiðar o.s.frv. En af hverju er verið að ræða þetta? Það er vegna þess að Ísland sker sig úr í samfélagi þjóðanna hvað þetta snertir. Og það er fleira sem fylgir, það er vaxtastigið og verðbólgan.

Við viljum skila því hér inn í þessa umræðu undir lok hennar frá ríkisstjórninni að við ætlum að berjast áfram gegn verðbólguhorfunum og við ætlum að ná tökum á verðbólgunni. Við munum beita ríkisfjármálunum, annars vegar til að verja þá sem eru í viðkvæmri stöðu og hins vegar til þess að ná niður verðbólgunni með öðrum þeim stjórntækjum sem við höfum lögfest, t.d. fyrir Seðlabankann. Við sendum líka út ákall til vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) um að undirbúa nú kjarasamningagerð þar sem menn semja um launahækkanir heilt yfir sem ekki fara fram úr framleiðnivexti á komandi misserum. Þetta skiptir máli. Með réttum ákvörðunum náum við tökum á þessari stöðu.