153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:47]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu í dag. Ég vil taka fram í upphafi að Samfylkingin vill að við endurskoðum refsiramma vímuefnalöggjafarinnar og að við aukum stuðning og aðstoð við þau sem glíma við vímuefnavanda. Við viljum líka að varsla neysluskammta sé ekki refsiverð og það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að það að varslan sé ekki refsiverð sé ekki valkvæður hluti skaðaminnkunarstefnunnar. Það er nauðsynlegur hluti skaðaminnkunarstefnunnar að láta af refsistefnunni. Refsistefnan drepur fólk og við verðum að horfast í augu við það. Það er alveg sama hvernig hún er framkvæmd. Hún skaðar vímuefnanotendur, hún viðheldur fordómum, jaðarsetningu og vinnur gegn mannréttindum og ekki síst mannréttindum kvenna á jaðri samfélagsins. Ég tel votta fyrir pólitískum vilja hjá hæstv. heilbrigðisráðherra til að færa þessi málefni í viðunandi horf en ég vil brýna hann til að taka af skarið og bíða ekki eftir því að tilteknir starfshópar komist að einhverri hugsanlegri niðurstöðu. Hann ber pólitíska ábyrgð á því að taka af skarið hvað þetta varðar.

Við stöndum á krossgötum. Við erum að missa ungt fólk í blóma lífsins í hrönnum og okkur ber að bregðast við, grípa inn í og gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir fleiri andlát af ofskömmtun þegar við vitum að við höfum tæki í höndunum til að koma í veg fyrir þau. En grundvöllurinn verður að vera skaðaminnkun og afnám refsistefnunnar.