153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:52]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn. Hæstv. ráðherra. Kæra þjóð. Ég fór á ráðstefnu fyrir 30 árum í Ameríku varðandi fíknimál. Þar komu helstu sérfræðingar á þessu sviði og töluðu við okkur. Þeir útskýrðu það m.a. fyrir okkur að alkóhólismi, ef það er samnefni yfir alla sem eiga við fíkniefnavandamál að stríða, er þriðji stærsti dauðsvaldurinn á eftir krabbameini og hjartasjúkdómum. Alkóhólismi er þannig sjúkdómur að hann er svolítið eins og sykursýki. Maður heldur því bara í skefjum á ákveðinn hátt. Sykursjúklingurinn sprautar sig með insúlíni, gjarnan, ekki alltaf, en segjum bara mjög gjarnan. Alkóhólistinn fer í meðferð og lærir sitthvað um sjúkdóminn og ástand sitt og kemur úr meðferðinni vitandi nákvæmlega af hverju hann er þarna og hvað skeði. En hann verður að halda sér við með því að hitta aðra alkóhólista eða fíkniefnaneytendur, sem eru líka að glíma við þetta, til þess að það snjói ekki í sporin, því að það er svo algengt að það snjói í sporin og einn daginn man viðkomandi ekki eftir því hversu slæmt þetta var. Hættan er sú að þeir sem eru búnir að vera í fíkniefnaneyslu og fara síðan beint í fíkniefnaneyslu aftur eftir að hafa verið án áfengis eða fíkniefna í einhvern tíma fari í skammtinn sem þeir tóku síðast. Hann er of stór. Líkaminn ræður ekki lengur við þann skammt sem þeir voru vanir að taka áður. Þannig að það er mikið atriði að það sé hugsað vel um fólk þegar það er búið að vera í neyslu og það sé leitt í gegnum lífið og hafi aðstoð.