153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem hafa nefnt það að þetta er mikilvæg umræða sem við eigum hérna í dag. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn vegna þess að mér finnst umræðan undanfarin ár hafa breyst og mér finnst vera kominn miklu meiri samhljómur þegar kemur að því að átta sig á mikilvægi skaðaminnkunar. Það er gott og það er nauðsynlegt. Mig langar að taka undir með þeim sem hafa talað um það að áfallasaga og félagslegar aðstæður eru hluti af því heildarumhverfi sem þarf að huga að. Við erum partur af því samfélagi sem við búum í og við mótumst af því sem hendir okkur á lífsleiðinni, ekki síst ef við verðum fyrir einhvers konar misrétti eða ofbeldi. Ég vil líka taka undir það að það er mikilvægt að fólk þori og geti leitað aðstoðar fyrir sig eða aðra ef á þarf að halda vegna vímuefnanotkunar. Mér finnst mikilvægt að við mætum fólki þar sem það er statt en á sama tíma vil ég einnig segja að mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á forvarnir. Árangur okkar í áfengis- og tóbaksvörnum er, held ég, eitthvað sem við eigum að vera stolt af og byggja á því sem vel hefur gengið þar.

Að lokum vil ég taka undir með hv. þm. Jódísi Skúladóttir um mikilvægi þess að klára vinnu við heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma sem hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, ákvað að ráðast í og mögulega hefur hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra færi á að segja okkur hvar það mál er statt.