153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[14:59]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka þessa flottu umræðu. Mig langar bara að taka aðeins á nokkrum punktum. Hér í umræðunni var talað um að það þyrfti að vera hvetjandi fyrir fólk að hætta. Ég tek eftir því stundum þegar sumir tala um fólk með vímuefnavanda að þá er það eins og þessir einstaklingar séu ekki búnir að ná bata nema þeir séu bara edrú og þeir verði að vera edrú og öðruvísi sé ekki hægt að lifa. Mér finnst mikilvægt að við horfum aðeins inn á við og sjáum hvernig við erum einhvern veginn að þröngva okkar gildismati upp á aðra. Ég hef kynnst fólki sem á við vímuefnavanda að stríða og það lifir bara ágætu lífi þrátt fyrir að vera enn þá í neyslu. Það er bara mjög hamingjusamt þar sem það er og það sér ekki fram á að vilja hætta og þá er það bara þannig. Sumir hætta á eigin forsendum. Þetta er alls konar. Við verðum að vera opin fyrir þessu og aðstoða þá einstaklinga sem taka þessa ákvörðun í sínu lífi. Hugsið ykkur ef þið lendið í slysi og þið fáið bakverk og þið eruð að taka verkjalyf út af þessu slysi sem þið lentuð í og þið eruð enn þá með bakverk. Það verður enginn hvati til að hætta á verkjalyfjunum fyrr en bakverkurinn fer. Það sama á við um fólk sem á við vímuefnavanda að stríða, þ.e. hvatann, að við aðstoðum þau við að vinna úr þessum áföllum, að við refsum þeim ekki.

Mér finnst mikilvægt að koma inn á umræðuna varðandi afglæpavæðinguna. Diljá Mist Einarsdóttir, hv. þingkona, talar um refsistefnuna eins og hún sé ekki áhyggjuefni vegna þess að sektin er svo lág. En það er ekki bara sektin, efnin eru líka tekin af fólki og það ýtir undir aukna glæpi því að einhvern veginn þarf fólk að fjármagna neysluna sína og einhvern veginn þarf það að borga sektina. En það er ekki einu sinni bara það. Það er líka stimpillinn. Það er orðið glæpamaður. Það er jaðarsetningin og þetta kemur í veg fyrir að fólk leiti sér aðstoðar. En það sem er mikilvægast í þessu er að við þurfum að snúa þessu við. Við erum með refsi- og bannstefnu sem er búin að vera hérna í áratugi. Hver er árangurinn af henni? Getur einhver sýnt mér það á blaði hver árangurinn er af núverandi stefnu? Við þurfum að svara því. Ef árangurinn er enginn eða hún er að valda skaða þá þurfum við að hætta þessu.