153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

bann við hvalveiðum.

[15:38]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það sem ég legg áherslu á í þessum efnum, eins og raunar í öllum mínum embættisfærslum, eru vönduð vinnubrögð. Það skiptir mjög miklu máli að hafa traustan og öruggan grunn fyrir því sem gert er og ekki síst úr sæti ráðherra á öllum tímum og í öllum málaflokkum. Nú er það svo að Matvælastofnun hefur vísað skýrslunni til fagráðs um dýravelferð með þá spurningu hvort það sé yfir höfuð hægt með núverandi tækni að gæta að dýravelferð og þeim meginreglum sem er að finna í þeirri löggjöf við dráp á hvölum. Ég hef ekki séð þá niðurstöðu. Fyrir liggur síðar í sumar eða í haust skýrsla um vistkerfi hafsins að því er varðar hvali. Það er líka mikilvægt að við höfum það í höndunum. Það er mikilvægt að við höfum í höndunum upplýsingar og nýjustu mögulegu upplýsingar um efnahagsleg áhrif af hvalveiðum. (Forseti hringir.) Allt þetta er undir. Ég legg áherslu á vandaða vinnu og ég held að við hljótum að vera öll sammála um það, hvort sem er í þessu máli eða öðru, að þá kröfu (Forseti hringir.) eigum við að gera til framkvæmdarvaldsins.