153. löggjafarþing — 120. fundur,  7. júní 2023.

Almennar stjórnmálaumræður.

[20:00]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Mig langar að byrja á því að fara með ykkur á fjarlægar slóðir, aftur í tímann þegar Indland var enn hluti af breska heimsveldinu. Þá kom upp krísa í borginni Delí þegar kóbraslöngur urðu að plágu. Bresk stjórnvöld gripu fljótt til aðgerða og ákveðið var að hver sá sem fangaði slöngu og skilaði skinninu til yfirvalda fengi fyrir það verðlaunafé. Markmiðið var einfalt: Slöngunum yrði útrýmt. Sumir sáu sér hins vegar strax leik á borði og fóru að rækta kóbraslöngur, drápu þær fyrir skinnið og innheimtu verðlaunaféð. Bretar áttuðu sig á þessu og greiðslurnar voru lagðar af. Þeir sem gerst höfðu kóbraslöngubændur losuðu sig við kvikindin með því að sleppa þeim lausum og götur Delí fylltust aftur af slöngum. Afleiðingar afskipta stjórnvalda urðu þær að ástandið varð í raun miklu verra en áður.

Af hverju stend ég hér árið 2023 og segi ykkur sögu af kóbraslöngum á Indlandi? Jú, vegna þess að af henni er hægt draga mikinn lærdóm. Við stöndum nú frammi fyrir áskorunum sem ber að taka alvarlega. Verðbólgan hefur hækkað meira en um langt árabil og það versta við stöðuna er að greiðslubyrði margra heimila hefur hækkað mikið, svo mikið að sumir eiga í erfiðleikum með að ná endum saman. Við getum ekki og megum aldrei sætta okkur við slíka stöðu. Ríkisstjórnin er að huga sérstaklega að þeim heimilum sem lakast standa, samhliða öðrum aðgerðum til að koma í veg fyrir að við festumst í vítahring verðbólgu og vaxtahækkana. En það er kallað eftir frekari aðgerðum. Það er eðlilegt og við erum að og munum grípa til þeirra. Það er samt vert að hafa í huga að svörin leynast ekki í skammtímahugsun og örvæntingarfullum afskiptum hins opinbera. Ég ætla að fá að taka tvö dæmi:

Skattahækkanir. Þau eru til sem trúa því að stjórnvöld geti valið sér feita og stóra bita af hlaðborði skattahækkana. Þetta er mantra stjórnmálamanna sem telja sig geta mætt erfiðum áskorunum í efnahagsmálum með annarra manna peningum í landi þar sem skattar eru nú þegar mjög háir. Kallað er eftir því að við skattleggjum breiðu bökin. En við höfum séð afleiðingar þess þegar t.d. eignaskatturinn lagðist þungt á herðar eldra fólks sem neyddist til að selja heimili sín. Skattahækkanir bitna líka alltaf á dugnaði og frumkvæði fjölskyldufólks. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum ekki hækka skatta. Þess í stað á ríkið að fara betur með fjármuni, sýna meira aðhald í ríkisrekstri en nú er gert. Við eigum og erum að nýta kosti nýsköpunar sem er skilvirkasta leiðin til betri og hagkvæmari ríkisrekstrar og heilbrigðisþjónustu því að við erum stolt þjóð með sterkt velferðarkerfi sem getur orðið miklu betra án skattahækkana.

Eitt stærsta verkefni stjórnvalda er jafnframt að fjölga stoðum efnahagslífsins. Ekki halda áfram í rússíbana sveiflukennds hagkerfis og stóla á að ein, tvær eða þrjár atvinnugreinar reddi okkur út úr vandanum hverju sinni.

Annað dæmi um vanhugsaða skammtímaaðgerð er Evrópusambandið. Það er alveg sama hversu flókin staðan er eða hversu alvarlegt vandamálið er, svar sumra er alltaf Evrópusambandið. Staðreyndin er þó sú að hér eru lífskjör almennt betri. Atvinnuleysi þar er helmingi meira en hér, atvinnuleysi ungs fólks 15%. Sem hlutfall af landsframleiðslu eru skuldir hins opinbera hér á landi um 40% en 83% í löndum Evrópusambandsins. Því er spáð að hagvöxtur innan sambandsins verði 1% í ár, en tæp 5% hér. Það að ganga í Evrópusambandið eða að taka upp nýjan gjaldmiðil er engin töfralausn í núverandi stöðu.

Ég átta mig á því að upptalning á hagtölum hefur ein og sér ekki mikla þýðingu fyrir þá sem hafa áhyggjur af hækkandi íbúðalánum eða matarverði. Það er þó gott að hafa í huga að staðan núna er tímabundin ef við höldum rétt á spilunum og við sjáum verðbólguna nú þegar fara lækkandi.

Ég sagðist ætla að nefna tvö dæmi en ég freistast til að bæta einu við. Það tengist alvarlegu húsnæðisástandi. Reykjavíkurborg lagði nefnilega upp með þá hugmyndafræði að skipuleggja nýja íbúðabyggð nánast eingöngu á þéttingarreitum. Lóðaverð margfaldaðist og verktakar neyddust til að byggja mun dýrara húsnæði en annars hefði risið. Afleiðingarnar af þessari einstrengingslegu miðstýringu borgarinnar eru skelfilegar þegar húsnæðisverð rýkur upp, sjaldan hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk að komast inn á markaðinn og líklega hefur staðan aldrei verið þannig að það sé meiri þörf fyrir húsnæði.

Frá því þessi ríkisstjórn tók við hafa 39.000 manns flutt til landsins, en það jafngildir öllum íbúum Kópavogs. Ef fer sem horfir bætast 20.000 manns við á næstu fjórum árum, sem svarar til allra íbúa Akureyrar. Við þurfum fleiri Íslendinga. Íslenskt samfélag og ríkisstjórnin hefur unnið þrekvirki með því að taka á móti þeim mikla fjölda sem hingað er kominn sem er aðeins að hluta til kominn vegna hörmulegrar innrásar Rússlands í Úkraínu. En þegar við bætist heill Kópavogur og Akureyri á örfáum árum verðum við að líka aðeins að staldra við. Aukningin í fjölda þeirra sem hingað koma er svo hröð að það reynir verulega á alla innviði. Erfitt er að finna húsnæði og álag í skólum og heilbrigðisþjónustu er orðið svo mikið að þjónustan líður fyrir. Til að koma í veg fyrir það þarf að forgangsraða fjármunum en byggja ekki upp kostnaðarsamt kerfi fyrir þá sem ekki fá ekki hér vernd. Á þetta höfum við í Sjálfstæðisflokknum bent í mörg ár. Við þurfum að horfast í augu við að innviðir okkar eru komnir að þolmörkum. Erfiðlega gengur að finna húsnæði, það er bið eftir því að börn fái viðeigandi aðstoð í skóla, læri íslensku og sveitarfélög eiga erfitt með að sinna lögbundnum verkefnum.

Málefni útlendinga eru viðkvæm og svo snúin að það getur jafnvel verið best að segja sem minnst til að ekki sé snúið út úr orðum manns. Í ljósi stöðunnar get ég þó ekki tekið þátt í umræðum hér á Alþingi í kvöld án þess að minnast á hana.

Staðan er sú að fjölgunin getur ekki verið í þeim veldisvexti sem við höfum séð síðustu mánuði og misseri. Ef við ráðum ekki við verkefnið er voðinn vís. Það sem við gerum eigum við einfaldlega að gera vel. Við viljum taka vel á móti fólki sem fær hér alþjóðlega vernd, en ef við ráðum ekki við verkefnið skapast hætta á andúð og í þessu litla landi myndast togstreita sem við viljum síst af öllu.

Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna er að finna leið til að koma í veg fyrir það, finna leið sem sýnir að íslenskt samfélag muni finna jafnvægið sem felst í því að taka vel á móti fólki en ráða við verkefnið á sama tíma.

Ágætu landsmenn. Ég trúi á Ísland, ég trúi á fólkið sem hér býr og framtíðina sem hér er. En á krossgötum verðum við líka að staldra við og vanda okkur. Svo margt af því sem við stjórnmálamenn gerum er gert af góðum hug, jafnvel rausnarskap. En rétt eins og þegar Bretar lofuðu verðlaunafé fyrir kóbraslöngurnar þurfum við að gæta þess að viðbrögð okkar skapi ekki annan vanda síðar. Ég hef meiri trú á íslensku samfélagi en svo að við eigum að láta glepjast af skammtímareddingum, Evrópusambandinu eða skattahækkunum. Ég trúi því að með langtímahugsun og yfirvegun munum við fara í gegnum þær áskoranir sem við okkur blasa og það er okkar sameiginlega verkefni.