Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Sigurjón Þórðarson) (Flf):

Frú forseti. Ég flyt hér nefndarálit 2. minni hluta. Þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti áætlun þessa fyrr í vor voru viðbrögðin heldur dræm. Enda skyldi engan undra, 424 blaðsíðna áætlun til fimm ára sem svarar í engu þeim efnahagsvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Nú hefur fjárlaganefnd fjallað um áætlunina í rúman mánuð og haldið fjölda nefndarfunda með fulltrúum ráðuneytanna, annarra stjórnvalda og helstu umsagnaraðila. Hver er niðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar eftir alla þessa vinnu og í ljósi þróunar í efnahagsmálum undanfarnar vikur? Hún er sú að fjármálaáætlun skuli samþykkja án nokkurra breytinga. Það er bara engin breyting, það á að samþykkja áætlunina eins og hún var. Öll þessi vinna hefur skilað sér í óbreyttri áætlun. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi haldið fréttamannafundi og boðað miklar breytingar þá erum við með algjörlega óbreytta fjármálaáætlun.

Áhrif verðbólgu og hárra vaxta eru farin að hafa gífurlega neikvæð áhrif á allt samfélagið. Ráðstöfunartekjur heimilanna gufa upp og húsnæðislán hafa stökkbreyst vegna vaxtaþróunar. Strax á vormánuðum 2020 kölluðu þingmenn Flokks fólksins eftir forvarnaaðgerðum ríkisstjórnarinnar þar sem sýnilegt væri að verðbólgan væri handan við hornið og nauðsynlegt að verja heimilin með öllum ráðum áður en það væri of seint. Þingmenn Flokks fólksins kölluðu eftir fyrirbyggjandi aðgerðum árið 2020 en það gerðist lítið sem ekkert til að koma í veg fyrir þessi hörmulegu áhrif verðbólgunnar sem við horfum fram á nú. Ráðherrarnir hirtu í engu um varnaðarorðin heldur virtu þau að vettugi. Ríkisstjórnin taldi litlar sem engar líkur á því að verðbólgan færi vaxandi í nánustu framtíð heldur þvert á móti væri hér allt í góðu jafnvægi svo langt sem augað eygði. Annað kom á daginn, eins og þjóðin veit. Vísitala neysluverðs hækkaði jafnt og þétt í gegnum Covid-árin og jókst svo gífurlega á síðasta ári. Frumvörp Flokks fólksins um frystingu verðtryggðra lána, vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar og afnám verðtryggingar hafa ekki hlotið náð fyrir augum stjórnvalda og er það miður fyrir samfélagið í heild. Við værum sannarlega í betri stöðu ef þessi frumvörp hefðu fengið hljómgrunn.

Frá áramótum hefur verðbólgan haldist yfir 9,5% og fór hæst í 10,2% í febrúar. Þegar fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 var lögð fram í lok mars 2023 stóð verðbólgan í 9,8% og meginvextir Seðlabanka Íslands í 7,5% eftir að hafa verið hækkaðir tvisvar frá áramótum, fyrst í febrúar um 50 punkta og aftur í mars um 100 punkta. Á fyrsta ársfjórðungi 2023 mældist ársvöxtur útlána lánakerfisins 11,3% og ársvöxtur peningamagns í umferð um 9,0%. Þann 24. maí hækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti sína enn einu sinni og nú um 125 punkta og standa þeir hvorki meira né minna í 8,75% og verðbólgan mælist 9,5%. Á sama tímabili hafa spár um þróun verðbólgu orðið svartsýnni. Í Peningamálum Seðlabanka Íslands 24. maí 2023 var spáð 8,8% verðbólgu á þessi ári og hafði þá hækkað úr 7,2% eða um 1,6% frá síðustu útgáfu Peningamála. Hlutirnir eru því ekki að fara til betri vegar að mati Seðlabankans heldur til hins verra. Samkvæmt nýjustu spám er búist við að verðbólgan nálgist ekki verðbólgumarkmið fyrr en árið 2025.

Viðskiptabankarnir hafa á sama tímabili fylgt vaxtahækkunum Seðlabanka Íslands eftir í nokkurn veginn sama takti, en sem dæmi voru breytilegir grunnvextir óverðtryggðra íbúðalána hjá Landsbankanum 7,5% um áramót en nema nú 10,25% og hafa hækkað um 2,75 prósentur líkt og meginvextir Seðlabanka Íslands. Fyrir dæmigert 50 milljóna kr. íbúðalán hafa þessar vaxtahækkanir í för með sér aukningu á mánaðarlegri greiðslubyrði um 114.583 kr. á aðeins fimm mánuðum.

Hinn 5. júní birtist fréttatilkynning á vef Stjórnarráðsins með fyrirsögninni „Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu“. Í fréttinni kom fram upptalning á ýmsum aðgerðum, svo sem 2,5% hækkun fjárhæða almannatrygginga, aukin stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða og afkomubætandi aðgerðir að umfangi 36,2 milljarðar kr. Fjölmiðlar bitu á agnið og birtu fullyrðingar Stjórnarráðsins nánast orðrétt úr fréttatilkynningunni. Það er miður að horfa upp á þetta, enda kemur í ljós, eins og við mátti búast, að „aðgerðapakkinn“ er um nánast ekki neitt. Hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra voru í raun bara að ástunda upplýsingaóreiðu og ekki er það traustvekjandi að leggja fram áætlun um fjármál þjóðarinnar og ástunda í sömu mund, sömu andrá, upplýsingaóreiðu.

Ríkisstjórnin hafði þegar tilkynnt nánast allar aðgerðir við framlagningu fjármálaáætlunar í mars, ef frá er talin viðbót við framangreind stofnframlög á yfirstandandi ári. Aðhaldsaðgerðir voru nánast allar tilgreindar í greinargerð við fjármálaáætlun, nánar tiltekið á bls. 56. Forsætisráðherra hafði tilkynnt um leiðréttingu almannatrygginga þegar fjármálaáætlun var kynnt fjölmiðlum í mars, en aðeins átti eftir að ákveða prósentustig hækkunarinnar. Enda staðfesti meiri hluti fjárlaganefndar hversu innihaldstómur aðgerðapakkinn er í raun með því að leggja til óbreytta fjármálaáætlun. Hún var algjörlega óbreytt og samt var haldinn þarna mikill fréttamannafundur með lúðrablæstri sem var í raun bara ómerkileg upplýsingaóreiða af hálfu hæstv. forsætisráðherra.

Fjármálaáætlun hefur mikilvægu hlutverki að gegna í baráttunni við verðbólguna ef allt væri með felldu. Hún á að vera traustvekjandi og boða raunverulegar aðgerðir sem hefur þá jákvæð áhrif á væntingar, á þá sem eru að taka ákvarðanir um fjármál sín, þó hún komi ekki til framkvæmda fyrr en eftir einhver ár. Því miður hefur þessi áætlun sem við erum að ræða hér í raun verið rýrð með þessum vinnubrögðum. Það dregur úr trausti og trúverðugleika á því að hún skili tilætluðum árangri.

Frú forseti. Lengi hefur ríkisstjórnin lofað endurskoðun á lögum um almannatryggingar með það að markmiði að bæta stöðu öryrkja. Viðræður þess efnis sigldu í strand á síðasta kjörtímabili en þegar ríkisstjórnin kynnti nýjan stjórnarsáttmála síðla árs 2021 var því lofað að endurskoðunin næði loks fram að ganga. Því miður hefur vinnan dregist og ráðherra málaflokksins frestaði framlagningu frumvarps um endurskoðun greiðslukerfis örorku sem átti að berast þinginu í mars.

Þó hefur dregið til tíðinda hvað varðar fjármögnunina en gert er ráð fyrir því að fjárheimild málaflokksins verði aukin um rúma 16 milljarða kr. á ársgrundvelli vegna heildarendurskoðunar örorkulífeyriskerfisins. Að vísu er greinargerð fjármálaáætlunar margsaga um fjármögnun verkefnisins. Á bls. 56 segir að nettóaukning útgjalda vegna kerfisbreytingar verði 8 milljarðar kr. en svo segir á bls. 71 að varanlegur kostnaður við nýtt kerfi sé áætlaður 16,5 milljarðar kr. frá og með árinu 2028 þegar kerfisbreytingar verða að fullu komnar fram. 2. minni hluti hyggst ekki fjalla um hvort umrædd fjármögnun vegna kerfisbreytinganna sé til þess fallin að ná tilsettu markmiði, í ljósi þess að ekki liggur fyrir hvernig kerfisbreytingin verður útfærð. Hins vegar telur 2. minni hluti þörf á að tryggja verkefninu fjármagn strax á næsta ári. Öryrkjar hafa beðið áratugum saman eftir heildarendurskoðun. Frekari tafir eru einfaldlega ekki í boði. Ef ekki verður hægt að ganga til verka strax á næsta ári þá leggur 2. minni hluti til að fjármagnið verði nýtt til að hækka lágmarksframfærslu almannatrygginga þangað til endurskoðunin kemur til framkvæmda.

Annar minni hluti getur ekki stutt fjármálaáætlun að óbreyttu. Þörf er á frekari aðgerðum til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu. Því eru lagðar til nokkrar breytingar á tekju- og gjaldahlið með það markmið að sporna gegn verðbólgu og vernda viðkvæma þjóðfélagshópa. Á tekjuhliðinni er lagt til að bankaskattur verði hækkaður í fyrra horf og að veiðigjald verði hækkað svo að þjóðin fái sanngjarnt endurgjald fyrir afnot af sjávarauðlindinni. Á gjaldahliðinni er lagt til að fjármögnun vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins verði flýtt um eitt ár, aukin framlög til geðheilbrigðismála og endurhæfingarúrræða vegna fíknisjúkdóma og lagt er til að stofnframlög til uppbyggingar á hagkvæmum íbúðum verði tvöfölduð út gildistíma fjármálaáætlunar. Heildarumfang útgjaldatillagna er 62,6 milljarðar kr. á gildistíma fjármálaáætlunar en breytingartillögur á tekjuhlið skila ríkissjóði auknum tekjum um sem nemur 80 milljörðum kr. á gildistíma fjármálaáætlunar. Nettóáhrifin á ríkissjóð eru jákvæð þegar upp er staðið.

Við leggjum fram ábyrgar tillögur fyrir Alþingi til þess að tekjurnar dugi fyrir þeim kostnaði sem við leggjum til og það verður meira að segja afgangur, frú forseti. Við horfum á þessa fjármálaáætlun og í stuttu máli er þetta fjármálaáætlun sérhagsmunanna. Þetta er fjármálaáætlun óbreytts kerfis. Það er ekki verið að gera eitt né neitt nema viðhalda óbreyttu kerfi. Það kom fram í andsvörum að við lögðum til að hækka bankaskattinn og ná þar í góða summu. Því var ekki tekið fagnandi af fulltrúa Vinstri grænna hér í umræðunni, hvað þá öðrum þingmönnum stjórnarliðsins og er það vissulega sorglegt. Hér er gríðarleg misskipting og það blasir við að tekjuafgangur bankanna á fyrstu þremur mánuðum ársins var eitthvað í kringum 20 milljarðar. Á meðan heimilin eru í vandræðum með að ná endum saman virðast bankarnir þrútna út sem aldrei fyrr. Þetta er ástand sem venjulegu fólki svíður og skilur ekkert í. En fólkið sem er hér í meiri hluta á Alþingi má ekki hugsa til þess að þetta verði eitthvað jafnað. Það má ekki hugsa til þess að þarna verði einhverjir fjármunir sóttir og settir til þeirra sem minna mega sín. Þeir mega ekki heldur hugsa til þess, meiri hlutinn á þingi, að settar verði einhverjar skorður á þennan gríðarlega hagnað bankanna sem er mjög óeðlilegur og stefnir að óbreyttu í 80 milljarða á þessu ári. Það er erfitt að átta sig á því hvað er í gangi og ég held að þessi umræða sem hér fer fram verði líka að fjalla eitthvað um þessa stjórnarflokka. Margir sem telja sig Framsóknarmenn gera það á þeim forsendum að þeir séu mögulega vinir landsbyggðarinnar, klæða sig í ullarpeysu landsbyggðarinnar og eru hófsemdarmenn og miðjumenn og allt það. En í verkunum hér í þinginu er fyrst og fremst horft til aðalsins í landinu, kvótaaðalsins sem rakar saman fé bankakerfisins á meðan kjósendur, almennir kjósendur, þurfa að borga, eins og ég benti á, 114.000 kr. meira í júní en í byrjun ársins. Þá er alveg ljóst með atkvæðunum og með þessari fjármálaáætlun hverjir eru í forsæti eða hverjir eru í öndvegi þegar verið er að skammta.

Það var umhugsunarefni að starfa í þessari ágætu fjárlaganefnd þann stutta tíma sem ég fékk að sitja þar inni nú á vordögum. Ég vil þakka verkstjórn formannsins, hún var í sjálfu sér góð hvað varðar störfin, og starfsmennirnir skiluðu góðu verki. En það er samt áberandi að þegar þeir koma sem tilheyra aðlinum og stóru hagsmunaaðilunum þá er jafnvel reynt að halda mönnum innan við einhverjar skorður. Það kom mér verulega á óvart að það var jafnvel reynt að ala mig upp, að spyrja ekki ákveðinna spurninga þegar komið var að Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Það kom mér á óvart að það þyrfti að setja einhverja grindur utan um þær spurningar sem þingmenn spyrja á nefndarfundum. Það er eins og þessi hópur sé í svo mikilli bómull að það sé varla hægt að sækja þangað eina krónu eða láta hann fara að sömu reglum og aðra í samfélaginu. Það virðist eiga að vera einhver alveg sérstök gæska við þennan hóp og jafnvel að það þurfi að fara sérstaklega varlega þegar fulltrúar hans eru spurðir spurninga í nefndarherbergjunum.

Það er eitt sem ég held að sé nauðsynlegt að ræða hér og nú í tilefni frétta vikunnar. Nú eru aðalsprauturnar í stórútgerðinni að sækja heilan milljarð í sameiginlega sjóði í gegnum dómskerfið vegna mögulegrar handvammar við að setja reglur varðandi úthlutun á makrílkvóta. Ég furða mig á því að þjóðkjörnir þingmenn skuli ekki taka þá umræðu í kjölfar þess að reyna að ná þessum fjármunum til baka. Ég er ekki að tala um skattlagningu heldur að koma þessum veiðiheimildum á makríl að einhverju leyti á uppboð. Þó að það væri ekki til annars en að ná upp í þá milljarða sem stefnir í að streymi út úr ríkissjóði. Nei, það er ekki verið að því. Það virðist frekar verið að slá því á frest enn lengur að koma til móts við litla öryrkjann. Það er alla vega sú mynd sem blasir hér við.

Það er alveg ljóst að ef við ætlum að ná tökum á verðbólgunni þá þarf að taka á húsnæðismálunum. Það er bara staðreynd sem ekki er hægt að líta fram hjá að hæstv. innviðaráðherra ber ábyrgð á húsnæðismálunum og Framsóknarflokkurinn hefur borið ábyrgð á þessum málaflokki um árabil. Hann er í raun í algjörri kleinu. Og hér er fjármálaáætlun sem tekur ekki á þessu og felur ekki í sér raunverulegar aðgerðir heldur ætla menn að halda áfram að hafa þessi húsnæðismál í því fari sem þau eru, þ.e. að þau miðist við að uppfylla draumaverkefni Samfylkingarinnar í borginni og mótist inn í borgarlínuverkefnið í stað þess að farið sé í raunverulega uppbyggingu á húsnæði. Það hefur komið fram hér, bæði frá verkalýðshreyfingunni og verktökum sem hafa í hyggju að byggja húsnæði hratt og vel hjá Reykjavíkurborg, að það eru engar lóðir á lausu. Þetta er auðvitað eitt af því sem þarf að bæta úr og hefði þurft að taka fastari tökum í áætluninni. Síðan þarf auðvitað líka að bæta samkeppnina, taka á samkeppnismálunum á öllum sviðum þannig að ef menn hækka verð geti fólk bara farið í næstu búð og fengið vöruna á betra verði. Er einhver vinna í gangi á vegum stjórnvalda hvað það varðar? Það er ekki að sjá að við séum að stórauka fjármagnið í þennan málaflokk. Það er alveg ljóst að það er ekki bara fjármagnið sem skiptir máli heldur pólitískur stuðningur og jákvæð umræða um það að herða hér á samkeppnismálunum og koma samkeppni á sem víðast. Ég tel skorta verulega á þar. Ef við ætlum að ná verðbólgunni niður þá eru það húsnæðismálin og samkeppnin sem skipta máli. Í stað þess að verið sé að efla Samkeppnisstofnun má segja að hún sé í stöðugri endurskoðun, hvort sameina eigi hana annarri stofnun og allt í lausu lofti. Það er ekki góð leið til að styrkja eftirlitið að vera alltaf með það í lausu lofti hvort því verði breytt á þessu ári eða næsta. Menn hljóta að sjá það.

Það eru fleiri þættir sem vekja furðu þegar farið er yfir þessa fjármálaáætlun. Það var fróðlegt fyrir mig að sitja hér á vordögum í nefndinni. Ef farið er yfir stjórnarsáttmálann þá átti það að vera í öndvegi að taka á loftslagsmálum heimsins. Litla Ísland átti náttúrlega að bjarga loftslaginu í heiminum. Ég var nú kannski ekki alveg á því að við myndum hafa einhver úrslitaáhrif hvað það varðar en í umræðunni má skilja að það skipti miklu máli, þetta mikla framlag Íslands í loftslagsmálum. Staðan er einfaldlega sú að við erum ekkert að fara í þá átt sem stjórnvöld eru að tala um, þ.e. að það verði niðurskurður um þriðjung fyrir árið 2030. Við erum jafnvel að fara í hina áttina. Útblástur er að aukast. Sumar af þessum aðgerðum sem eru birtar hér, m.a. komu athugasemdir frá samtökum þeirra sem flytja inn bíla, benda bara augljóslega á það, frú forseti, að draga á saman það fjármagn sem fer í orkuskipti hjá almenningi þegar komið er að bílaflotanum. Ekki bætir úr skák þegar Vinstri grænir, í grænu vegan-peysunum sínum, koma hér með aflvísisfrumvarp þar sem þau vilja hleypa óheftu vélarafli inn á grunnslóðina í nafni orkuskipta — það er greinilega ekki mikil meining á bak við eitt né neitt þar. Ef við værum að hugsa um verðmætasköpun fyrir þjóðina þá færum við miklu frekar í þá átt að stuðla að því að dagróðrarbátar, sem koma með hæsta verðið, skila hæsta verðinu á markaði, fengju meira rými á miðunum. Það er ekki þannig. Vinstri grænir vilja hafa það öðruvísi og setja stóru togarana eða aflmestu togarana í forgang.

Það eru fleiri þættir sem vekja ákveðna undrun og undirstrika þjónkunina við stórútgerðina. Þá vil ég nefna, frú forseti, þær fisktegundir sem þeir hirða ekki um að veiða, skilja eftir. Ég er t.d. að tala um ufsa og blálöngu, jafnvel makríl. Hvers vegna er þá ekki öðrum hleypt í þetta? Ég nefni líka úthafsrækjuna. Hvers vegna eru þessar aflaheimildir látnar brenna upp? Hvers vegna hafa menn enga döngun í sér til að taka á þessu? Það er auðvitað vegna þess, og kannski lýsir það þessu dæmi, að þegar þessir furstar koma á nefndarfundi þá á helst að krjúpa fyrir þeim í stað þess að spyrja eðlilegra spurninga.

Þessi fjármálaáætlun fékk mikla umræðu, það mættu margir á fundi. Niðurstaðan var óbreytt áætlun. En við í Flokki fólksins viljum gera hana betri. Þess vegna flytjum við breytingartillögu m.a. um bankaskattinn. Það verður þá fróðlegt að vita hvort stjórnarflokkarnir greiða atkvæði með þessum tillögum, eða hvaða flokkar gera það. Ef þeir gerðu það þá yrði það til þess að ekki þyrfti að slá öllu á frest sem snýr að hagsmunum þeirra sem minna mega sín.