Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Sigurjón Þórðarson) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, auðvitað teljum við í Flokki fólksins að það sé mikið svigrúm til aðhalds í opinberum rekstri. En við teljum líka að það sé svigrúm til tekjuöflunar ef menn fara í þá sjóði og til þeirra sérhagsmunaafla sem hafa miklu meira en nóg. Það veltur upp úr vösum þeirra og svo langt að það er jafnvel komið í skattaskjól á Kýpur og hingað og þangað um heiminn. Við þurfum bara að sækja þessa fjármuni. Það er ekkert flókið, það er ekkert óréttlátt. Við erum að tala t.d. um nýtingu á sjávarauðlindinni, sameiginlegri auðlind, bara með því. Það væri ágætt ef hv. þingmaður svaraði því. Hefur hann t.d. eitthvað á móti því að fiskur verði verðlagður á opnum frjálsum markaði þannig að allir geti keypt hann á raunvirði? Ég tel að sú aðgerð myndi skila íslensku samfélagi miklu, ekki bara auknu tekjum heldur einfaldlega meira réttlæti.