Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:56]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Kunnuglegt stef, segja talsmenn ríkisstjórnarflokkanna þegar þeir eru spurðir um þunga gagnrýni á fjármálaáætlun og bæta því við að gagnrýnin komi þeim ekkert á óvart. Það er í sjálfu sér heiðarleg játning að meiri hlutinn bjóst við gagnrýninni, þau viðurkenna að þau heyra og skilja þungann í gagnrýninni sem kemur reyndar úr öllum áttum og er merkilega samhljóða. En vandamálið er bara það að hlustunin er engin. Þrátt fyrir að gagnrýnin sé þeim kunnugleg er niðurstaðan engu að síður sú að henda hingað inn í sal fjármálaáætlun sem þau leggja til að verði samþykkt óbreytt. Í þessu felst einhver djúpstæð tegund afneitunar og meðvirkni í Stjórnarráðsfjölskyldunni. Við sjáum alveg og við finnum hér í þinghúsinu núna þessa síðustu daga að það er ekki þannig að stjórnarþingmenn gangi hér glaðir um, stoltir af þessari niðurstöðu. Ég velti því fyrir mér hvort það hljóti ekki að vera þannig að þessi niðurstaða hafi fæðst í samningum milli formanna stjórnarflokkanna þriggja og stjórnarþingmenn verði svo bara að sætta sig við þetta plagg, koma svo hérna upp í andsvör og spyrja stjórnarandstöðuþingmenn: Hvað hefðuð þið gert?

Vanlíðan með niðurstöðuna er svo mikil að ríkisstjórnarflokkarnir hentu síðan öllum öðrum frumvörpum í framhaldinu út af borðinu. Það virðist vera svo óþægilegt fyrir þessa fjölskyldu að vera saman í húsi að nú þarf að rýma húsið í snatri. Forsætisráðherra birtist í fjölmiðlum og segir að það merkilegasta við árangur ríkisstjórnarinnar núna sé að klára þing á tilsettum tíma. En þau kláruðu ekki þetta þing heldur hentu dagskránni bara í ruslið. Frumvörpum hefur verið slátrað hérna hægri vinstri í beinu framhaldi af því að fjármálaáætlun var troðið upp á þingmenn meiri hlutans og okkur öll á lokadögum þingsins. Verðlaunin eru að allir fái að fara fyrr heim í sumarfrí og forsætisráðherra lætur hafa eftir sér að það hafi ekki verið vert að fara inn í erfið mál á þessum tímapunkti. Ekki vert að ræða málin, ekki vert að ræða frumvörpin, ekki vert að stunda pólitík á þessum tímapunkti. Mun betra að senda fólkið sitt þess í stað bara út úr húsi, kannski til þess að hin kunnuglega gagnrýni heyrist minna, svo þingmenn séu ekki mjög lengi hér inni í þingsal að segja það augljósa um fjármálaáætlun, sem er þetta: Ríkisstjórnin neitar einfaldlega að vera hluti af lausninni gegn verðbólgunni, kastar inn handklæðinu. Það sem verra er, ríkisstjórnin er orðin stór hluti vandans sem við stöndum frammi fyrir um verðbólgu og vaxtahækkanir.

Þessi endanlega útgáfa fjármálaáætlunar stendur óbreytt frá því hún var lögð fram í vor þrátt fyrir þunga ágjöf, t.d. frá Samtökum atvinnulífsins, BHM, frá ASÍ og fleirum. Þrátt fyrir það eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar lítil sem engin. Þrátt fyrir áskoranir hagfræðinga um að ríkisstjórnin verði að taka virkan þátt í baráttunni gegn verðbólgu gerist lítið. Þetta fólk, þessir hagfræðingar, hafa gengið lengra. Þeir hafa bent á að það hafi alvarlegar afleiðingar fyrir heimilin þegar ríkisstjórnin neitar að taka þátt í verkefninu. Hvernig þá? Vegna þess að þá þarf að beita vaxtahækkunum oftar, sem er langtum grimmara verkfæri en að beita ríkisfjármálunum. Ríkisstjórn sem þannig hagar sér er ekki í neinni stöðu til að biðla til vinnumarkaðar eða almennings um að sýna ábyrgð. Fólk sem segir alltaf pass getur ekki beðið aðra um að haga sér.

Ég viðurkenni að ég furðaði mig á því þegar ég las fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar á mánudag hvers vegna það kom aldrei skýrt fram hvaða væntingar ráðherrar hefðu til þessarar stefnu sinnar og tillagna, hver væru markmiðin. Ég spurði hér fyrr í dag hv. formann fjárlaganefndar að því hvort hún byggist við því að þessar tillögur hefðu áhrif á næstu stýrivaxtaákvörðun. Það væri auðvitað heilbrigður metnaður að geta lýst því yfir. Það er prófsteinninn, hvort skref stjórnvalda hafi þau áhrif að vextir lækki næst, hafi þau áhrif að það sé búist við því að verðbólga fari niður. Það er merkilegt að það þarf að toga þau svör fram með töngum, loðin svör. Það er um þetta sem málið snýst. Munu þessar aðgerðir bera árangur? Munu þessar aðgerðir leiða til þess að það sé hægt að fara að lækka vexti? Og síðan í framhaldinu: Hvernig ætlum við að dreifa byrðunum núna meðan á þessu ástandi stendur? Þetta eru tvær pólitískar lykilspurningar. Skýr skilaboð af hálfu hæstv. forsætisráðherra, af hálfu hæstv. fjármálaráðherra um markmið annars vegar og væntan árangur hins vegar hafa þýðingu fyrir almenning, hafa þýðingu fyrir atvinnulífið og markaðinn. En þessi skilaboð er auðvitað ekki hægt að senda þegar þarna var aðallega bara að finna fyrst og fremst endurtekið efni. Jú, táknræn skilaboð um hvernig eigi að standa að hækkunum hjá embættismönnum og þingmönnum og ráðherrum, og svo útgjaldareglan, fjármálareglan. Annað er óbreytt.

Ríkisstjórnin sendir út tilkynningu um að hún sé að fara í það að fresta frekari framkvæmdum en nefnir sömu framkvæmdir og þegar áætlunin var lögð fram í mars. Það er búið að selja okkur það, held ég, í þrígang að það eigi að fresta stækkun Stjórnarráðsins, alltaf sem ný saga. Aftur er lagt á borðið að draga eigi úr ferðalögum ríkisstarfsmanna. Þetta sást í fjárlagafrumvarpi síðasta haust. Þetta sást í fjármálaáætlun hér í mars, aftur núna sem ný aðgerð á mánudag. Auk þess er það breyta sem skiptir óskaplega litlu í stóra samhengi hlutanna. Gömul saga verður ný.

Vandamálið er að stærsti hlutinn af þessum tillögum eru tillögur sem allir sem komu fyrir fjárlaganefnd og amma þeirra voru sammála um að myndu ekki duga til að kæla verðbólgu að neinu ráði, myndu ekki duga til að hjálpa þeim fyrirtækjum og heimilum sem hafa tekið á sig miklar og þungar vaxtahækkanir.

Forseti. Síðustu þrjú ár eru auðvitað einstök í hagsögunni. Hjól hagkerfisins stöðvuðust næstum því á skömmum tíma. Við upplifðum lækkun raunvaxta sem var líka nánast fordæmalaus. Aukið peningamagn, uppsafnaður sparnaður, launahækkanir; allt skapaði þetta þrýsting, eftirspurnarþrýsting sem margfaldaðist síðan þegar hagkerfið tók við sér aftur, tók mjög vel við sér og mjög hratt. Síðan er það innflutta verðbólgan. Allt breytur sem hafa áhrif. Auðvitað er það alveg rétt að það er ekkert eitthvað eitt hérna sem er að verki. Sá hluti þjóðarinnar sem var í vari fyrir áhrifum heimsfaraldursins á sínum tíma hagnaðist á þessum aðstæðum. En núna er það að gerast að nær öllum kostnaði af verðbólgu og vaxtahækkunum er verið að velta yfir á ungt fólk, barnafjölskyldur og ég myndi segja minni fyrirtækin líka, þau taka á sig vaxtahækkanir og ríkisstjórnin er að boða til viðbótar 1% skattahækkun á þau.

Unga fólkið trúði á lágvaxtaskeiðið og ég held að við þekkjum öll sögur af því hvernig lánin hafa breyst hjá sumum fjölskyldum og ungu fólki. Þegar þjóðin spyr: Hvers vegna þarf þetta að vera svona? Hvers vegna þarf þrefalt hærri vexti á Íslandi til að taka á verðbólgu sem er svipuð og annars staðar? þá fáum við yfirleitt að heyra að það sé vegna þess að hér sé svo mikill hagvöxtur og við séum í öfundsverðri stöðu. Það segir hæstv. fjármálaráðherra yfirleitt og formaður Sjálfstæðisflokksins. En er það þannig með hagvöxtinn? Þegar fjármálaráðherra mælti fyrir fjármálaáætlun í vor, þá talaði hann um þessa öfundsverðu stöðu, talaði um að við værum í betri stöðu en nágrannaríki okkar, talaði um að við værum í betri stöðu en mjög víða. En það má velta því upp hversu mikið þjóðin finnur fyrir þessum hagvexti á eigin skinni þegar við sjáum að hagvöxtur á Íslandi á hvern íbúa er bæði lægri en í nágrannaríkjum okkar og sá lægsti af öllum OECD-ríkjum, hagvöxtur á hvern íbúa. Þetta er breyta sem skiptir máli og ég nefndi þetta í ræðu hér þegar fjármálaáætlun var kynnt í vor.

Á bak við hagvöxtinn eru ýmsar breytur en ekki síst sú að fólk hefur flust hingað til lands í miklum mæli til að vinna í ferðaþjónustu og byggingargeiranum. Framleiðni í ferðaþjónustu er lítil. Landsframleiðsla á mann dregst saman og að framleiðni sé að minnka er mikið áhyggjuefni og mér finnst sérstakt hversu fáir nefna það hér í þessum sal. Þessi staðreynd fær allt of litla athygli. Ferðaþjónustan hefur reynst okkur mikilvæg atvinnugrein og hún er það í dag, ekki síst fyrir byggðir landsins, mikilvægt byggðamál. En það þarf að skoða hvaða áhrif hún hefur á samfélagið og ekki síst hér í Reykjavík. Hún hefur ruðningsáhrif á húsnæðismarkaði og á töluverðan þátt í þeirri stöðu sem þar er uppi. Á þetta hefur verið bent, t.d. af BHM, og þetta verðum við auðvitað að ræða opinskátt.

Hér eru kynntar tillögur í húsnæðismálum, sem er að mínu mati af hinu góða, en án þess þó að ræða að neinu marki áhrif ferðaþjónustunnar á húsnæðismarkaðinn, áhrif þess að fleiri en 2 milljónir manna verða hér á árinu og vinnuaflið í greininni flyst til landsins að utan líka og þarf auðvitað húsnæði. Auðvitað hefur þetta áhrif á eftirspurn á húsnæðismarkaði. Við sjáum að hátt í 400 manns sækja um hverja einustu íbúð sem er auglýst á almennum leigumarkaði. Húsaleiga hefur hækkað mest á Íslandi af öllum löndum Evrópu, það kemur fram hjá Leigjendasamtökunum. 90% þeirra sem eru á leigumarkaði vilja ekki vera þar. Við sjáum líka að afleiðingar af vaxtahækkunum núna eru þær að byggingamarkaðurinn og fasteignamarkaðurinn eru á leið í frost. Fyrir framan nefið á okkur núna teiknast upp næsta fasteignabóla. Ég sakna þess að fá ekki skýr svör um varnir stjórnvalda gagnvart þessum afleiðingum vaxtahækkana. Mér finnst blasa hér við hvað varðar húsnæðismarkaðinn, sem er stór þáttur í þessu markmiði okkar um verðbólguna, að við verðum að ræða það að stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í undirstöðuatvinnugrein hefur áhrif á aðra þætti samfélagsins. Ferðaþjónustan, eins og ég segi, skilar okkur miklum tekjum, er mikilvæg grein, en það þarf að tala um tekjurnar af henni í samhengi við afleiddan kostnað. Það á að ræða það af meiri metnaði hvernig góð atvinnugrein fær að vaxa og þróast þannig að það geti verið í sátt og samlyndi við íbúa til lengri tíma litið.

Aftur aðeins um hagvöxtinn. Auðvitað skiptir öllu að stefna og aðgerðir stjórnvalda byggi á réttum forsendum. Ef svo er ekki þá er auðvitað mikil hætta á því að útkoman verður röng. Ég spyr: Ættu stjórnvöld að miða áætlanir um útgjöld í meira mæli við framleiðniþróun? Ættu stjórnvöld að miða áætlanir um útgjöld með tilliti til þess hver þróunin er í hagvexti á Íslandi á mann? Getur verið að verðbólguþrýstingur ríkissjóðs stafi mögulega af því að útgjaldaáætlunin miðar við ranga eða hæpna mælikvarða? Ég bið meiri hlutann um að hugleiða þetta því að það er alltaf hættulegt að taka samhengið úr sögunni og það finnst mér við vera að gera þegar almenningi er sögð sagan af hinum frábæra íslenska hagvexti. Ríkisstjórnin neitar með fjármálaáætlun að vera hluti af lausninni í baráttunni við verðbólguna og um leið öðrum stórum áskorunum hagkerfisins. Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans verður mælikvarði á árangur þeirra aðgerða sem hér er verið að boða. Ég hef í því sambandi áhyggjur af því hvort ríkisstjórnin sé að vinna eftir réttum forsendum um það hvaða aðgerðum hún er að stilla upp. Ég nefndi hér í fyrri umr. um fjármálaáætlun að fjármálaráðherra var þá mikið að tala og birta greinar um góða stöðu Íslands og nefndi þá yfirleitt þrennt sérstaklega í því samhengi. Það var nýtt tískuorð sem ég viðurkenni að ég var ekki mjög kunnug áður en ég sá þetta alls staðar hjá Sjálfstæðisflokknum, frumjöfnuðurinn. Frumjöfnuðurinn er dálítið góður. Frumjöfnuðurinn er að batna, krakkar. Vandamálið er að þetta er eins og að segja að afkoman á heimilinu sé góð áður en ég tek afborganir af lánunum mínum með í reikninginn. Ofboðslega fínn frumjöfnuður á mínu heimili. En fyrir þjóð með vaxtakostnað með sinn þriðja stærsta útgjaldalið birtir það okkur mjög skakka mynd þegar því er sleppt að tala um vaxtakostnað. Síðan er það hið lága skuldahlutfall í samanburði við önnur ríki. Það er auðvitað gott að hlutfallið er ekki sérstaklega hátt og við ættum auðvitað að vera að njóta góðs af því, en það er ekki. Fá Evrópuríki eru með hærra vaxtahlutfall en við hér á Íslandi, hærri vaxtakostnað, hærri fjármagnskostnað en Ísland. Ríkið er í sömu stöðu og íslensk heimili. Það er vaxtakostnaðurinn sem er að sprengja allt og það að tala ekki um kostnaðinn af lánum getur aldrei sagt söguna alla.

Það hefur verið talað um að ríkið borgi í aukavaxtagjöld vegna krónunnar um 60 milljarða á ári, sem sagt vaxtamunur á milli krónu og evru er 60 milljarðar á ári. Myndi muna um þessa fjármuni í fjárfestingar fyrir fólkið í landinu? Auðvitað. Viðreisn hefur spurt að því hvers vegna það þurfi margfalt hærri vexti hér á landi þegar við erum þrátt fyrir allt að glíma við svipaða verðbólgu og annars staðar. Við þekkjum auðvitað líka línuna um það að verðbólgan sé víða langtum hærri en á Íslandi. Engu að síður erum við Evrópumeistarar í vaxtahækkunum. En þá er svarið líka alltaf þetta með hagvöxtinn. Það er umhugsunarvert að við getum annars vegar sagt söguna af því að hér sé jú mikill hagvöxtur, en síðan þegar við förum að skoða hann með tilliti til þess hvernig þjóðinni er að fjölga á áður óþekktum hraða, formaður fjárlaganefndar fór yfir það hér fyrr í dag, erfitt að finna þjóðir þar sem fjölgunin er hliðstæð, þá er hagvöxturinn sá minnsti á meðal allra OECD-ríkja þegar hann er reiknaður á mann.

Forseti. Efnahagsmál snúast auðvitað fyrst og fremst um það hvernig við viljum sjá okkar samfélag, hvernig við viljum sjá Ísland. Um þetta snúast stjórnmálin auðvitað líka, hvernig landi við viljum búa í. Efnahagsstjórnin er síðan verkfærið okkar til að ná fram þeim markmiðum. Það má ekki missa sjónar á því að við erum alltaf að ræða um það hvernig við viljum sjá Ísland, hvernig samfélag við viljum fyrir börnin, fyrir eldri borgara, fyrir konur og karla, fólk af öllum kynjum, fyrir landsbyggðina, fyrir höfuðborg, fyrir Íslendinga og útlendinga sem hér búa. Ég vil búa í landi þar sem tækifæri barna eru jöfn, þar sem bakland barna hefur ekki allt um það að segja hver tækifærin eru. Ég vil búa í landi þar sem menntun og heilbrigðisþjónusta er aðgengileg og góð og að fólk geti notið hennar óháð efnahag. Ég vil búa í landi fjölbreytts atvinnulífs þar sem samkeppni fær að njóta sín, þar sem heilbrigð samkeppni er alltaf markmiðið og í landi þar sem Ísland er stoltur þátttakandi í alþjóðasamvinnu. Það þarf að vera hægt að ræða heildarmyndina þegar við ræðum um þessi grundvallarmarkmið okkar. Mér finnst stundum eins og fjölskyldan í Stjórnarráðinu sé meðvirk. Hún er meðvirk og vill ekki tala um fílinn sem brýtur allt og bramlar á heimilinu með reglulegu millibili. Meðvirka fjölskyldan vill frekar bara vera glöð og þakklátt þegar fíllinn á sínu góða daga. Þegar við segjum eitthvað hina dagana þegar við ræðum fílinn, þegar við ræðum krónuna, þá segir þetta fólk: Ekki tala krónuna niður, ekki tala fílinn niður. Það lyktar dálítið af meðvirkni. Hvað segir það um gjaldmiðil sem þolir ekki samtal, að það megi ekki tala um hann, þá brotni hann við það?

Það er viss meðvirkni sem veldur því að hluti heimila og fyrirtækja þarf að borga tvöfalt eða þrefalt hærri vexti en almennt þekkist í grannlöndunum og þetta þurfum við að ræða. Þetta er réttlætismál. Mér finnst svarið um að evran sé ekki á dagskrá ekki duga til í ljósi þess hvað hagsmunir eru undir. Þetta er réttlætismál líka vegna þess að vaxtaákvarðanir Seðlabankans í dag snerta ákveðinn hluta hagkerfisins en ekki annan.

Ég lagði fram fyrirspurn í vetur til viðskiptaráðherra um fjölda fyrirtækja sem gera upp í öðrum gjaldmiðli en íslenskum. Þar kom í ljós að um 250 íslensk fyrirtæki gera upp í öðrum gjaldmiðli, fyrst og fremst evru og dollara. Ég skil það bara mjög vel. Þau vilja stöðugleika, þau vilja geta gert áætlanir til lengri tíma, þau vilja draga úr kostnaði vegna gjaldmiðils. En afleiðingin er líka sú að þessi fyrirtæki eru í skjóli fyrir vaxtaákvörðun Seðlabankans og þurfa ekki að hafa áhyggjur. Það er bara fínt og gott. En eftir stendur að skuldug heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa þess vegna að bera þyngri byrðar en aðrir af vaxtahækkunum. Þegar vextir bíta bara hluta samfélagsins þá þarf að hækka vextina meira til að þeir hafi áhrif. Og nú eiga litlu fyrirtækin og meðalstóru fyrirtækin sem lifa í krónuhagkerfinu að taka á sig vaxtahækkanir og ríkisstjórnin ætlar síðan að bjóða þeim upp á 1% skattahækkun til viðbótar.

Þrátt fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs sé þannig að skuldirnar ættu ekki að rugga bátnum þá er staðan sú, eins og ég nefndi áðan, að ekkert Evrópuríki borgar jafn hátt hlutfall í vexti. Í því samhengi eru heimilin og ríkið í hliðstæðri stöðu því að gjaldmiðillinn kostar ríkið líka. Upphæðirnar eru sturlaðar og hafa auðvitað áhrif á getu okkar til að styrkja t.d. heilbrigðiskerfið. Þær hafa áhrif á það hvernig okkur gengur að verja velferð, fjármagna samgöngur. Þegar vaxtakostnaður er þriðji stærsti útgjaldaliður heimilisins eða ríkisins þá hefur það auðvitað áhrif á það hvað hægt er að gera. Það er þess vegna erfitt að ræða langtímasýn um fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu ef þessi kostnaðarliður er ekki tæklaður og það á ekki að tækla hann.

Ríkisstjórnin talar núna um að hún vilji verja velferðina í þessu ástandi og ég er heils hugar sammála. Við erum það öll í þingflokki Viðreisnar. En það er auðvitað ekkert heimili sem finnur fyrir því að það þurfi að spara sem byrjar á því að hætta að kaupa lyf fyrir börnin. Mér finnst það sýna ákveðinn skort á hugmyndaauðgi varðandi það hvernig má fara vel með fé að halda að það eigi fyrst að ráðast á Landspítalann þegar við tölum fyrir því að hemja ríkisútgjöld. Það er eiginlega bara ofboðslega sérstök nálgun. Það er ótrúlegt að tala um heilbrigðiskerfið og fjárfestingar þar og staldra ekki við þann punkt hvað íslenska ríkið er að greiða í fjármagnskostnað, að íslenska ríkið er að sprengja sig á vaxtakostnaði. Þetta er í mínum huga mjög stórt, jafnvel stærsta velferðarmálið, stærsta réttlætismálið, stærsta hagstjórnarmálið; að losa þjóðina undan því að borga svona með gjaldmiðlinum okkar. Það er allt of lítið um þetta talað. Ég skil aldrei þann hluta salarins sem ég veit að hefur djúpa skoðun og djúpa afstöðu til þess að við eigum ekki að fara þessa leið, hvað hann vill lítið ræða þetta. Það er ábyrgðarhluti að neita að ræða grundvallarmál.

Aðeins um heilbrigðismálin í lokin. Ríkisstjórnin kynnti nýlega nokkuð sem hún kallar heildstæða áætlun um uppbyggingu innviða í heilbrigðiskerfinu til 2030, stórt og mikið nafn um að byggja nýtt hús. Við erum öll sammála um að það er löngu tímabært að byggja nýjan Landspítala. Það þarf hins vegar pólitíska forystu og heildarsýn í heilbrigðismálum til að þessi stóra bygging verði að því sem hún á að vera. Í þessu máli eins og í svo mörgum málaflokkum blasir við að ríkisstjórnin gengur ekki í takti og fyrir vikið gerist lítið sem ekkert. Biðlistar hafa bara lengst á vakt þessarar ríkisstjórnar. Steinsteypan mun ekki leysa málin fyrir fólki sem leitar á bráðamóttöku og bíður klukkustundum saman. Steinsteypan mun ekki breyta þeirri stöðu að starfsfólk er örmagna. Steinsteypan og fjármálaáætlun eru ekki heldur að breyta því að við sjáum lítil merki þess að það verði til fjármagn til þess að semja við sérfræðilækna sem hafa verið samningslausir árum saman. Sterkt heilbrigðiskerfi á að byggja á því að veita góða heilbrigðisþjónustu og ekki síður á því að þjónustan sé í reynd aðgengileg.

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa hlustað á umsagnaraðila í fjárlaganefnd vikum saman og eftir að við í nefndinni höfum rætt málin mjög mikið, að ríkisstjórnarflokkarnir þrír hefðu við afgreiðslu málsins bara átt að segja eins og er: Ríkisstjórnin getur ekki komið sér saman um það í hvaða átt eigi að róa og velur þess vegna bara að leggja árar í bát, hætta að róa, stíga úr bátnum, senda þingið bara heim, henda öllum öðrum málum, loka þessu bara. Tala síðan um það sem merkilegan árangur hvað þau eru dugleg að hlýða dagskrá og fara snemma heim. Verðbólgan mun halda áfram að vera vandamál þangað til að tillögur ríkisstjórnarinnar um að berjast gegn henni verða trúverðugar og vaxtahækkanir munu halda áfram að vera hluti af veruleika íslensks almennings. Alvarleikastigið felst í því að taka ekki hlutverk sitt alvarlega, að sýna ekki þá ábyrgð að skila verkefninu, skila því sem er verið að biðja um. Allir armar þurfa að róa í sömu átt, sagði í kynningu fjármálaráðherra þegar hann kynnti fjármálaáætlun. Það er alveg rétt. En enn sjáum við það ekki gerast. Þó að seðlabankastjóri sé ekki jafn harðorður í garð ríkisstjórnarinnar og hann var áður þá talar hann um þetta sem fyrsta skref, meira þurfi til að koma í haust. Hvers vegna var ekki farið í það í þessari fjármálaáætlun núna að senda þau skilaboð sem seðlabankastjóri biður ríkisstjórnina núna vinsamlegast um að sýna í haust? Það er af þessari ástæðu sem ungar barnafjölskyldur, ungt fólk, tekjulágt fólk, er annars vegar að kikna undan verðbólgu og hins vegar undan vaxtakostnaði á húsnæðislánum. Það er af þessari ástæðu sem ungt fólk sér fram á að geta ekki keypt sér íbúð. Þetta aðgerðaleysi hefur alvarlegar afleiðingar.

Mig langar aðeins að tala um tækifæri sem fór forgörðum þegar við afgreiddum fjárlagafrumvarpið fyrir síðustu jól því að þar var mikilvægt tækifæri. Þá vöruðum við í þingflokki Viðreisnar við því að ríkisstjórnin væri að skilja Seðlabankann einan eftir í glímunni við verðbólguna. Við lögðum fram tillögur um vaxtabætur, tillögur um húsnæðisbætur, tillögur um barnabætur. Við lögðum einn þingflokka fram hagræðingartillögur. Við lögðum fram tillögu um niðurgreiðslu skulda. Ég nefni þetta hér af því að ég þykist vita að þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi hér og spyrja: Hvað vill Viðreisn gera? Ég skil vel uppgjöf þeirra. En við lögðum fram tillögur og svo ég rifji það upp með þessum góðu herramönnum hér þá mættu menn samviskusamlega í atkvæðagreiðslur og felldu þessar tillögur allar. Ég ætla ekki að halda því fram að við í Viðreisn höfum verið ein um þessi varnaðarorð. Aðilar vinnumarkaðarins sögðu það sama, hagfræðingar og fjölmargir aðrir, seðlabankastjóri sagði það sama. Það var bara ekki hlustað og þrátt fyrir öll varnaðarorð heimsins valdi fjármálaráðherra að skila fjárlögum ársins 2023 með 120 milljarða kr. halla. Mikilvægu tækifæri kastað á glæ.

Það er auðvitað þannig í fjármálapólitík, og þessum orðum beini ég líka til félaga í stjórnarandstöðunni, að það er ekki hægt að ræða fjármál án þess að ræða skuldir og áhrif þeirra. Það er ekki hægt að ræða fjármál ríkisins og ræða bara innkomu en ekki útgjöld. Það er ekki hægt að ræða stöðu okkar án þess að ræða fjármagnskostnað vegna krónunnar. Það er ekki hægt að ræða bara ytri aðstæður eins og stjórnarliðar gera núna en ekkert um það hvernig farið er með fjármuni eða hvernig staðið er með fólkinu í landinu. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögur um að koma þeim til aðstoðar sem eru verst settir, sem er gríðarlega mikilvægt því verðbólga kemur alltaf verst niður á þeim sem minnst höfðu fyrir. Við styðjum þessar aðgerðir heils hugar en eftir stendur auðvitað að unga fólkið og millistéttin er að taka á sig þungt högg núna. Þess vegna er svo alvarlegt hversu skrefin eru máttlítil í því að kæla verðbólgu. Sömuleiðis þarf að segja hið augljósa, af því að frá þingliði Vinstri grænna heyrist iðulega að þau ætli sér að verja velferðina núna, að almannaþjónustuna eigi að verja, heilbrigðiskerfi og löggæslu — um þetta er enginn ágreiningur í þessum sal. Ef það er einhver ágreiningur um að verja velferðina þá held ég að hann sé fyrst og fremst innan ríkisstjórnarinnar. En eins og ríkið hefur verið rekið hjá þessari ríkisstjórn þá er vel hægt að hagræða og maður myndi vilja sjá skýr skilaboð um að óvæntur ábati, þessi tekjuauki, fari í niðurgreiðslu skulda, ekki bara í ný útgjöld. Við heyrum að Seðlabankinn er að tala fyrir þessu núna: Farið og horfið núna á útgjöldin, það myndi hjálpa fólkinu væri það gert.

Ég ætla að segja í lokin, sem mér finnst leitt að segja, að ríkisstjórnin hefur sýnt að þegar kemur að verðbólgunni þá á hún ekki svör. Þegar kemur að ábyrgri efnahagsstjórn þá er henni ekki treystandi og við eigum tvö ár eftir af stjórnartíð hennar. Ég ætla bara að ljúka á því að segja að ég held að við gætum gert svo miklu betur.