Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

afvopnun o.fl.

953. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hönd utanríkismálanefndar fyrir nefndaráliti í máli um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit. Með frumvarpinu verður til ný rammalöggjöf um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit. Sameinaðir verða í ein heildarlög lagabálkar sem kveða á um framkvæmd þjóðréttarsamninga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit. Með því að sameina efni þessara lagabálka skapast heildaryfirsýn yfir málaflokkinn og einfaldara verður að stuðla að samræmi reglugerðarheimilda, eftirlitsheimilda og refsiheimilda eftir því sem unnt er með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum. Þá verður ráðherra lögformlega falið stefnumótunarhlutverk og málaflokkunum um leið skipaður skýrari sess í lagasafninu. Í frumvarpinu felast ekki nýmæli að öðru leyti en því að styrkja og skýra framkvæmd samkvæmt núgildandi ákvæðum.

Herra forseti. Með frumvarpinu verða uppfærð ákvæði um útflutningseftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi samkvæmt gildandi rétti til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttarsviðinu innan Evrópusambandsins. Með því verður komið í veg fyrir að íslensk útflutningsfyrirtæki verði fyrir aðgangshindrunum á markaði þar sem krafist er útflutningsleyfa fyrir vörur með tvíþætt notagildi og jafnframt komið í veg fyrir að Ísland sé notað til umflutnings fyrir hluti með tvíþætt notagildi sem kunna að verða notaðir í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar og mannúðarrétt eða til hryðjuverka eða alvarlegra brota á mannréttindum.

Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu. Meginbreytingin snýr að því að í III. kafla frumvarpsins eru útfærð ákvæði átta nánar tilgreindra alþjóðasamninga sem fjalla um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar. Í 14. gr. er fjallað um vopnaviðskiptasamning Sameinuðu þjóðanna, sem þó er ekki ætlunin að útfæra í þessum lögum heldur í vopnalögum, sbr. 6. gr. frumvarps til laga um breytingu á vopnalögum sem er til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Um umfjöllun um ákvæðið vísast til greinargerðar með því frumvarpi. Í greinargerð með frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar segir um 14. gr. að þrátt fyrir þetta standi vilji til þess að um samninginn sé einnig fjallað í þessum lögum til þess að þar verði að finna heildrænt yfirlit yfir þá alþjóðasamninga um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar sem Ísland er aðili að. Þar sem fyrirséð er að áðurnefnt frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum verður ekki samþykkt á yfirstandandi löggjafarþingi, leggur nefndin til að efnisákvæði 6. gr. þess frumvarps bætist við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar með nýjum tölulið við 29. gr. Breytingunni er ætlað að innleiða ákveðnar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands sem koma fram í vopnaviðskiptasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 2013 og jafnframt skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Breytingin snertir að öðru leyti ekki efni vopnalagafrumvarpsins.

Aðrar breytingar eru minni háttar og fyrst og fremst ætlað að auka skýrleika frumvarpsins og vísa ég að öðru leyti til umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu.

Að öllu framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir. Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Bjarni Jónsson, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Friðrik Friðriksson, Logi Einarsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.