Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 121. fundur,  8. júní 2023.

almannatryggingar og húsnæðisbætur.

1155. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti í máli nr. 1155, almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu). Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.

Frumvarpinu er ætlað að milda áhrif aukinnar verðbólgu á lífskjör elli- og örorkulífeyrisþega. Lagðar eru til mótvægisaðgerðir sem fela í sér hækkun á bótum almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar um 2,5% frá 1. júlí nk. Er það viðbót við 7,4% hækkun almannatrygginga sem tók gildi 1. janúar 2023. Samhliða hækkun bóta almannatrygginga er lögð til hækkun á frítekjumörkum húsnæðisbóta. Lagt er til að hækkun frítekjumarkanna verði afturvirk frá 1. janúar sl. svo unnt verði að framkvæma lokauppgjör í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2016, um húsnæðisbætur.

Nefndin hafði skamman tíma til umfjöllunar um málið en fékk engu að síður gesti á sinn fund og barst henni ein umsögn. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi. Meiri hlutinn telur frumvarpið fela í sér jákvæð og mikilvæg skref til þess að bregðast við þeirri efnahagsstöðu sem uppi er í verðlagsþróun og telur efni þess til bóta. Að mati meiri hlutans er brýnt að milda áhrif aukinnar verðbólgu á lífskjör elli- og örorkulífeyrisþega.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti hv. velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir álit meiri hlutans rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Óli Björn Kárason og Jódís Skúladóttir.