Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:24]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í dag er ég þakklát fyrir að okkur lánist að greiða atkvæði um þetta mikilvæga mál. Í dag er ég þakklát að okkur lánist að einfalda ósanngjarnar og í senn stundum sársaukafullar reglur til að hjálpa þeim sem aðstoð tæknifrjóvgunar þurfa til að eignast barn. Í dag er ég þakklát fyrir að við veitum von. Ég vil þakka nefndinni sérstaklega fyrir að hafa tekið inn í málið sjónarmið máls hv. þingkonu Hildar Sverrisdóttur til að fækka þröskuldum í lögunum. En þótt við séum hér að taka mikilvæg skref í rétta átt þá lít ég svo á að við séum einungis að hefja þá vegferð að einfalda kerfið og nefni ég hér sérstaklega kostnaðarþátttöku einstaklinga og þá staðreynd að við þurfum að heimila gjöf fósturvísa, sem getur reynst einstaklingum dýrmæt gjöf. Okkur ber skylda að móta sanngjarna löggjöf sem þvælist ekki fyrir einstaklingunum sem þurfa á aðstoð að halda til að búa til nýtt líf. Fjölskyldan er það mikilvægasta sem við eignumst.