Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

939. mál
[14:29]
Horfa

Friðjón R. Friðjónsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka fyrir að hér sé verið að samþykkja þetta litla mál sem skiptir samt sumt fólk svo miklu máli. Mig langar til að vitna til orða hv. þm. Jódísar Skúladóttir sem féllu í þessu máli í gær, með leyfi forseta:

„… það snýst samt um það að við séum ekki með okkar löggjöf, með okkar regluverki, sem við setjum af góðum hug, að mismuna fólki, jaðarsetja hópa, fylgjast betur með einum einstaklingi en öðrum, setja þyngri kröfur, fjárhagslegar, andlegar, líkamlegar, á einn einstakling umfram annan, því að það er ekki samfélag sem við viljum búa í.“

Við frjálshyggjufólk gætum varla orðað þetta betur og er sama hvaðan gott kemur. [Hlátur í þingsal.] Þessi góðu orð mætti þingið hafa í huga í öllum sínum verkum.

Að lokum vona ég að þingmaðurinn sem ég leysi hér af, Hildur Sverrisdóttir, leggi aftur fram sitt góða frumvarp, og betra frumvarp að mínu mati, um sama efni að teknu tilliti til þeirra góðu skrefa sem stigin eru hér nú og að þingið beri gæfu til að styðja frelsið og rétt fólks til yfirráða yfir eigin líkama. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)