154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil benda á að þessi hugmynd er ekki hugmynd Flokks fólksins, þetta er gömul hugmynd. Ég er hérna með fyrir framan mig grein frá 30. september 2009 sem tryggingastærðfræðingarnir Benedikt Jóhannesson og Bjarni Guðmundsson skrifa í Morgunblaðið sem heitir „Einföld og sársaukalaus leið til að minnka halla fjárlaga“. Þeir segja um þessa hugmynd um skattlagningu við innborgun í lífeyrissjóð, með leyfi forseta:

„Hugmyndirnar voru fyrst nefndar síðastliðinn vetur af ríkisstjórninni, en þingflokkur sjálfstæðismanna tók þær upp nú í sumar. Umræðan leiddist fljótlega á villigötur og hljóðnað hefur um hugmyndina. Það er miður, því hugsanlega er þetta ein besta lausnin til að leysa brýna þörf á skatttekjum, án þess að valda heimilum búsifjum í hækkuðum álögum.“

Þeir nefna nokkur atriði og í undirkafla sem heitir Einföld lausn á erfiðum vanda segja þeir eftirfarandi:

„Með skattlagningunni vinnst eftirfarandi:

1. Ríkið og sveitarfélög þurfa ekki að taka jafnmikil lán og ella.

2. Ekki þarf að hækka skattbyrði á almenning.

3. Séð er fyrir fjórðungi halla fjárlaga.

4. Ráðstöfunartekjur almennings skerðast ekki.

5. Neysla dregst ekki meira saman og kreppan dýpkar því ekki.

6. Skatturinn fer ekki út í verðlag.

Hugmyndin um breytta skattlagningu lífeyris hefur bæði kosti og galla og hefur ekki verið að fullu útfærð.“

Spurningin er þessi til hv. þingmanns: Hefur þingflokkur Pírata eða Píratar og hv. þingmaður mótað sér skýra afstöðu til þessa máls, um það að staðgreiðsla skatta eigi að fara fram við innborgun (Forseti hringir.) og á hverju byggist sú afstaða? Eruð þið sammála forsendunum um að lífeyrissjóðirnir séu alltumlykjandi? Það væri gaman að heyra skýra afstöðu hv. þingmanns til þessa.