154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:56]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. Jón Gunnarsson með því að ég hef hreinlega engan heyrt mæla því bót að rafskautin muni redda málinu — engan, hvorki vísindamenn né aðra. Það getur svo sem vel verið að ráðgjafinn sem framleiðir þessa nýju tækni sé til í að mæla þeim bót en hann á mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta og gerir sig eiginlega ómarktækan með því. Ég held hins vegar að við verðum að horfast í augu við það að við getum ekki tryggt mannúðlega aflífun stórhvelanna, hvorki með sprengiskutlum né rafskautum eins og það er verið að lýsa því. Við getum það ekki. Og fyrst við getum það ekki, er þá ekki kominn tími til að kippa sér yfir á 21. öldina og huga þannig að dýravelferðinni og koma í veg fyrir þjáningar stórhvelanna sem vinna fyrir okkur mikilvægt og gott starf í vistkerfum úthafanna, að leyfa þeim að njóta vafans? Ég held að við séum komin þangað. Það kann vel að vera og ég dreg það ekki í efa að það er fjöldi sérfræðinga, líffræðinga og sérfræðinga um líf sjávarspendýra, sem geta veitt okkur ráðgjöf um það hversu mörg dýr megi skjóta. Ég ætla ekkert að draga það í efa. Ég ætla hins vegar að draga það í efa að við getum fullyrt hér að þær aðferðir sem eru notaðar til að aflífa dýrin séu þannig að þær séu þjáningarlausar.