154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:18]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður spyr hvor eigi að njóta vafans og ég tel að það hafi komið vel fram í öllum ræðum sem hafa verið fluttar hér í dag, þ.e. að við höfum velferð dýra að leiðarljósi í þessu samhengi. Hver mörkin eiga að vera, það er nú held ég stóra spurningin í því hve dauðastríðið á að vera langt. Það kemur fram í skýrslunni frá því í fyrra að 60% hvalanna létust samstundis eða þar um bil. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að við veiðar við þessar aðstæður á stórhvelum geta alltaf orðið frávik. Þetta snýst um það hvað við sættum okkur við að frávikin séu mörg og hver þau mega vera. Við erum með ákveðnar reglur í því sömuleiðis þegar við erum að veiða önnur villt dýr eins og hreindýr. Þá er reiknað með ákveðnum frávikum við þessar veiðar og þess vegna eru menn alltaf tilbúnir með aðra byssu. Ég var að reyna að koma inn á það áðan í minni ræðu að ég skil engan veginn hvers vegna í ósköpunum ekki eru tvær byssur tiltækar á bátunum. Ég held að enginn hér inni geti svo sem svarað því, en mér finnst það mikilvægt í þessu samhengi. Svo ég ítreki svar mitt til hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar þá er það þannig þegar við ræðum um velferð dýra að dýrið er í fyrsta sæti en ekki hvalfangarinn.