154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

almannatryggingar.

111. mál
[16:56]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ef þú ert með meðaltal árs 1. maí eða 1. júní og meðaltal árs breytist síðan í lok ársins — í lok ársins ertu með raunverulega verðbólgu á því ári sem er að líða. Það er ekkert meðaltal, engin spá eða neitt, engin áætlun. Það sem ég er einfaldlega að segja er að við munum krefjast þess og ég mun krefjast þess að þessi kjaragliðnun hjá öryrkjum verði stöðvuð og helst að þeim verði bætt upp sú kjaragliðnun sem hefur átt sér stað. Það er það sem málið snýst um, að það verði tryggt í hverjum einasta mánuði. Þeir eiga klárlega að fá bætta hverja einustu kjaragliðnun sem á sér stað á næsta ári. Út á það gengur þetta. Það er það sem ber að tryggja. Viðmiðunin í fjárlagafrumvarpinu núna er 4,9% en það eru aðrir liðir sem eru ekkert miðaðir við 4,9% spá Hagstofunnar heldur er miðað við verðbólgu milli ára. Að sjálfsögðu á að miða við verðbólgu síðasta árs og hækka þá fram í tímann eins og gert er með aðra liði í fjárlagafrumvarpinu, sem eru, að mig minnir, 7,2% og 8,7%. Út á það gengur þetta. En það breytir því ekki að í fjárlagafrumvarpinu núna er miðað við 4,9% fyrir næsta ár. Af hverju er verið að gera það? Það er engin ástæða til að gera það. Það á að gera með það bara eins og með aðrar hækkanir, verðlagsbreytingar, aðra liði í fjárlagafrumvarpinu, hækka með sama hætti, hækka lífeyri almannatrygginga með sama hætti. Það er engin ástæða til að gera annað, ekki nokkur einasta. Flokkur fólksins mun svo sannarlega standa vörð um það að öryrkjar fá réttláta hækkun á næsta ári og líka það að kjaragliðnun verði stöðvuð og hún bætt. Það er grundvallaratriði. Þessi kjaragliðnun verður að stoppa og þeir eiga rétt á að fá bætur fyrir þessa kjaragliðnun vegna þess að fátækt í íslensku samfélagi á ekki að líðast, í samfélagi okkar sem erum sjötta ríkasta þjóð heims. Svo er maður að heyra það að við höfum ekki efni á því einu sinni. Það bara gengur ekki upp ef þú skoðar hagtölur og þá verðmætasköpun sem á sér stað í íslensku samfélagi.