154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

ákvörðun um fordæmingu innrása.

[15:40]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Undanfarna daga hafa staðið yfir linnulausar loftárásir á Gaza sem viðbrögð við fordæmalausri, ofbeldisfullri og blóðugri uppreisn Hamas-samtakanna. Ísraelski herinn hefur þar drepið a.m.k. 560 manns, einkum óbreytta borgara og börn. Þetta er áframhald á ástandi sem hefur smám saman farið versnandi frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Alþjóðasamfélagið hefur setið aðgerðalaust hjá og horft á stríðsglæpi og dauða tugþúsunda. Það kemur engum lengur á óvart að núverandi stjórnvöld í Ísrael nýti hvert tækifæri til ofsafenginna viðbragða gagnvart Palestínumönnum en allt er það hluti af áætlun ísraelskra stjórnvalda um að sölsa undir sig landsvæði Palestínumanna, hrekja þá á flótta og hertaka landsvæði þeirra.

Forseti. Það hræðilega ofbeldi sem heimsbyggðin varð vitni að um helgina gerðist ekki í tómarúmi. Ef ekki væri fyrir viðvarandi ólöglegt og ofbeldisfullt hernám, vonleysi, örvæntingu og neyð væru engin Hamas-samtök. Það ætti að vera orðið öllum ljóst að einungis samhæfður þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu getur stöðvað þennan vítahring ofbeldis. Hæstv. ráðherra hefur hingað til verið hljóð um stríðsglæpi Ísraels gegn palestínsku þjóðinni. Á laugardaginn síðastliðinn birti hæstv. ráðherra hins vegar yfirlýsingu á samfélagsmiðlum, eðlilega, þar sem aðgerðir Hamas voru fordæmdar harðlega. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig er ákvörðun tekin í ríkisstjórninni um að fordæma árásir erlendra ríkja á önnur og hvernig og á hvaða forsendum er ákveðið að gera það ekki?