154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

aðgerðir og áætlanir stjórnvalda gegn fátækt.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. 17. október er alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt og hann er á morgun. Örvæntingin er orðin mikil hjá þeim verst settu í íslensku samfélagi og fer vaxandi með aukinni fátækt. Eftirfarandi er smá sýnishorn af því sem ég fæ til mín frá fólki í neyð:

Ég á yfirleitt til mat handa fjölskyldunni fram í miðjan mánuðinn en svo verðum við að leita til hjálparsamtaka eftir matargjöf en vegna heilsubrests er það oft ekki hægt. Ég er að missa húsnæðið mitt vegna tugþúsunda hækkunar á leigu sem fer upp fyrir útborgaðar lífeyristekjur mínar. Hvað á ég að gera? Ég fann eftir langa leit annað húsnæði sem mér bauðst að leigja en varð að borga hundruð þúsunda sem ég átti ekki í tryggingar og bankinn vildi ekki aðstoða mig. Jólin eru fram undan og fáum við aftur eingreiðslu upp á 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust?

Matarkarfan hefur hækkað um 12,4% undanfarin ár og sumar matvörur meira en tvöfaldast í verði. Þá hefur þeim sem leita hjálpar hjá hjálparsamtökum fjölgað um tugi prósenta. Fátækt fólk er sá hópur sem hefur ekkert svigrúm til að mæta stórhækkuðum og óvæntum kostnaði sem fylgir miklum verðhækkunum vegna verðbólgu. Eins og ég hef áður bent á er 17. október alþjóðabaráttudagur gegn fátækt og hann er á morgun. Hvað er hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra að gera til að koma í veg fyrir fátækt? Ætlar hann að gera eitthvað í tilefni morgundagsins sem er baráttudagur gegn fátækt? Er hann með einhverjar áætlanir um það að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að útrýma fátækt? Er einhver áætlun hjá honum um það að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að fátækt á Íslandi verði útrýmt?