154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

aðgerðir og áætlanir stjórnvalda gegn fátækt.

[15:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir svarið en mér fannst nú orðin frekar snauð. Ég ætla að spyrja hann: Stendur til að t.d. hækka frítekjumark vegna fjármagnstekna sem hefur ekki hækkað síðan 2009 og hækka frítekjumark lífeyrissjóðs sem hefur heldur ekki hækkað síðan 2009? Vegna þess að frítekjumark lífeyrissjóðs skiptir konur gífurlega miklu máli. 25.000 kr. er enn þá frítekjumark þar — hvort það standi til vegna þess að nú er kvennafrídagurinn fram undan og við hljótum að geta hjálpað þar.

Svo langar mig að spyrja: Öryrkjabandalagið gerir kröfu um að lífeyririnn verði hækkaður um 12,4%. Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að hækka hann um þetta? Vegna þess að í fjárlagafrumvarpinu er nákvæmlega sama hækkun til fjölmiðla, bæði einkarekinna fjölmiðla og RÚV — hvort hann er tilbúinn til að hækka um nákvæmlega þetta en ekki 7% minna, eða 4,9% eins og stefnt er að? (Forseti hringir.) Og ef ekki, hvers vegna ekki?