154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[16:56]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum auðvitað alltaf að gæta okkar. Ég vil nú kannski ekki taka undir að það sé fordæmalaus skortur á húsnæði, en því miður höfum við séð það of oft. Ég veit ekki hvenær það er verst og hvenær best eða skást. Þetta er auðvitað tímabundið úrræði. Þetta eru ekki íbúðir til varanlegrar búsetu heldur er þetta tímabundið búsetuúrræði þannig að umfjöllun um gæði snerist kannski fyrst og fremst að öryggi, hollustuháttum, brunavörnum og slíkum þáttum, að umhverfi, nærumhverfinu, og þetta á að vera til bráðabirgða. Þetta er tímabundið. Vilji menn hins vegar gera þetta að varanlegu þá þarf að fara í gegnum það ferli sem við þekkjum og hv. þingmaður er að segja að við þurfum að gæta betur að, þ.e. gæðunum og að þetta sé þá varanlegt húsnæði. Þá er hægt að gera þær kröfur til þess. En ég er alveg sammála hv. þingmanni. Við eigum að fara varlega þegar um svona hluti er að ræða. Einhver okkar muna alla vega eftir bröggum sem entust býsna lengi og var þörf á sem búsetuúrræði.