154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans framsögu hér. Hæstv. ráðherra minntist á það í sinni ræðu að það lægi fyrir greining af hálfu Vinnumálastofnunar um þörf á húsnæði. Í greinargerðinni segir að það sé fyrir um 460 manns í hverjum mánuði. Þetta eru náttúrlega mjög háar tölur. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er þetta nýjustu tölurnar, þ.e. þarf ekki að gera nýja greiningu vegna þess að það hefur margt gerst frá því í vor? Það er kominn úrskurður frá kærunefnd útlendingamála um að vísa frá landinu þeim sem hafa fengið vernd, frá Venesúela, þ.e. að þeir fá ekki þessa viðbótarvernd sem þeir hafa fengið sem hefur gert það að verkum að hingað hefur streymt ótrúlegur fjöldi hælisleitenda frá Venesúela sem sækir um hæli á Íslandi, fjölmennari heldur en Úkraínufólkið. Er hæstv. ráðherra viss um að það sé svona mikil þörf fyrir þetta húsnæði í ljósi þessa úrskurðar sem nú hefur komið frá kærunefnd útlendingamála, sem mun breyta forsendum, held ég, verulega?