154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:08]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og tek undir það að þetta það sem kom fram í meðförum nefndarinnar síðastliðið vor, akkúrat þessi sömu sjónarmið. Eitt af því sem kom fram í meðförum nefndarinnar þá voru að einhverju leyti, eins og hv. þm. Logi Einarsson kemur inn á, eðlilegar áhyggjur af því að þetta sem hér er kynnt, og við sjáum sem tímabundið úrræði, verði varanlegt. Því langar mig að nota tækifærið hér í seinna andsvari og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þær breytingar sem hafa orðið á frumvarpinu milli framlagninga styðji að einhverju leyti þann skilning að þetta sé sannarlega tímabundið úrræði en ekki varanlegt. Í öðru lagi hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér einhverjar frekari breytingar á frumvarpinu í meðförum nefndarinnar, sem hugsanlega gætu orðið til að styrkja þann skilning að þetta sé tímabundin en ekki varanleg lausn.