154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:09]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að þær breytingar sem við höfum verið að gera geri það enn skýrara. Ég myndi t.d. taka undir það að það er mikilvægt að nefndin í sínum störfum, nefndaráliti eða einhverju slíku, myndi árétta það sérstaklega að um tímabundið úrræði sé að ræða og að það sé mikilvægt að fylgja því, sé hugmyndin að nýta húsnæðið til langvarandi íbúðabyggðar, og fara þá í gegnum ferlið. Ég vil hins vegar segja að það er líka mikilvægt að þingið átti sig á að það sem við erum að gera á sama tíma er að við erum að fara í stórfellda áætlun um húsnæðisuppbyggingu til að byggja þessar 5.000 íbúðir sem hér hafa verið ræddar. Í því samhengi erum við að leggja áherslu núna á þann þátt sem við getum gert, hið opinbera, í gegnum stofnframlög, í gegnum hlutdeildarlán, í gegnum þær íbúðir sem við höfum bein áhrif á og síðan auðvitað á hið augljósa, að skapa hér betri kjör, lægri verðbólgu og lægri vexti þannig að markaðurinn geti komið hingað inn af miklu meiri krafti og byggt húsnæði. Við þurfum framboð af húsnæði.