154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla nú kannski ekkert að dvelja of lengi við þetta en mér finnst samt skipta máli að fylgja þessu frumvarpi úr hlaði. Það var gott að fá hæstv. ráðherra hingað upp og svara því mjög afdráttarlaust að hér væri um tímabundin úrræði að ræða vegna þess að sporin hræða. Það verður mjög dýrt að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði til tveggja, þriggja ára og hvati til þess að breyta því til baka fyrir jafn mikinn kostnað væntanlega er kannski ekkert endilega augljós. Í frumvarpinu er fjallað um það með hvaða hætti er hægt að framlengja þetta þannig að það er eiginlega opnað aðeins á það. Því skiptir það máli að hæstv. ráðherra hafi sagt þetta afdráttarlaust að væntanlega eftir einhvern tíma, og ég er ekkert viss um að sami ráðherra verði í sama stólnum og nú, þá er vilji þingsins og ráðherra a.m.k. skýr.

Eins og ég ræddi í andsvörum við hæstv. ráðherra þá er allt of lítið talað um gæði í byggingarreglugerðinni, þessi óefnislegu gæði. Við höfum í áratugi verið með forskrift að reglugerð í staðinn fyrir að hún sé markmiðsdrifin. Þetta er sérstaklega hættulegt á tímum þegar framboð á húsnæði er of lítið og það þarf að spýta í lófana og byggja mjög mikið á næstu árum. Þetta er auðvitað sérstaklega hættulegt á sama tíma og núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa lagt niður opinberar byggingarrannsóknir vegna þess að þær eru auðvitað grunnurinn að því að við gerum hlutina vel. Þegar verið er að vinna hratt þá vill oft ýmislegt undan láta.

Ég skil hins vegar tilganginn með frumvarpi hæstv. ráðherra og viðurkenni þann vanda sem stjórnvöld standa andspænis. Þannig að ég er ekki hér til að dæma þetta norður og niður og leggjast gegn þessu heldur einungis að benda á atriði sem við verðum að vera mjög meðvituð um þegar við fjöllum um málið, væntanlega inni í nefndum og hér í 2. umræðu, vegna þess að það er ekki léttvægt að víkja frá ýtrustu kröfum um íbúðarhúsnæði þar sem heimili fólks er að tefla. Og þó vissulega séu settir varnaglar gagnvart tæknilegum atriðum eins og brunavörnum og öðrum slíkum hlutum þá er hætt við að við aðlögun bygginganna, sem eru nota bene ekki hugsaðar frá grunni sem íbúðarhúsnæði, geti ýmislegt slæmt skeð. Það eru hættur sem felast í þessu því að ef íbúðir sem hefur verið breytt með þessum hætti verða varanlegar — og það verður mjög auðvelt að færa rök fyrir því vegna þess að okkur mun skorta húsnæði nokkur ár eða áratugi fram í tímann — verður líka auðvelt að sýna fram á þann kostnað sem hefur fallið til vegna breytinga á húsnæðinu. Ég tala nú ekki um að ef einkaaðilar stíga inn í þetta og fara að framleiða þetta munu þeir vissulega hafa réttmætar væntingar um það að geta gert sem mest úr eign sinni. Þannig að ég hef mínar efasemdir þarna. Við værum þá að greiða leið fyrir undirmálsíbúðir á markaði, sem munu auðvitað líka kalla á kröfur frá almennum verktökum í framtíðinni um það að ef þetta má, af hverju megum við ekki líka.

Við þekkjum þetta bara allt of vel, bráðabirgðakröfur sem gerðar eru, þær eru oft notaðar til að þrýsta á um almennar breytingar líka. Ég spyr mig: Munu menn víkja frá þeirri almennu reglu að það verði birta inni í íbúðirnar úr tveimur áttum? Ætla menn bara að segja að þetta sé hópur sem getur lifað og búið við aðrar kröfur heldur en við gerum? Verða svalir áskildar og aðgengismál? Ég er ekkert viss um það. Við höfum nefnilega nú þegar verið að slaka of mikið á í mikilvægum hlutum þegar kemur að gæðum á húsnæði og ég er hræddur um að þetta ýti á það enn frekar og ég bið fólk að gjalda varhug við því vegna þess að við erum líka að ræða um sérstaklega viðkvæman hóp sem kemur úr erfiðum aðstæðum og á auðvitað að búa við sömu skilyrði og við gerum kröfu um fyrir okkur sjálf. Það verður eflaust hægt að taka atvinnuhúsnæði með mikilli lofthæð og gera að glæsilegum íbúðum. Á því leikur enginn vafi. En dæmi um hið gagnstæða verða örugglega líka mikið rædd þannig að það er auðvitað ekkert hægt að alhæfa. Eins og ég nefndi áðan þá verður kostnaðurinn til að breyta þessu til baka, kannski innan tveggja, þriggja ára, metinn það hár að þessu verði bara leyft að standa.

Ég er líka hræddur um að þau ákvæði sem leyfa byggingar utan íbúðarsvæðis, þó að það sé nú nefnt að þetta þurfi að vera í nálægð við það, muni sem sagt fjarlægja okkur frá því markmiði sem við höfum flest verið sammála um síðustu ár um að blanda sem mest þjóðfélagshópum, blanda íbúðabyggð þannig að þú getir ekki lesið það utan á hverfinu hvaða þjóðfélagsstöðu fólk tilheyrir. Ég held að það sé æskilegt að þessir hópar eins og aðrir séu sem mest í blönduðu umhverfi. Ég hef líka áhyggjur af því að það sé í raun verið að taka dálítið völdin af sveitarfélögunum og gera þeim ókleift að uppfylla þær kröfur sem þau hafa svo gagnvart íbúunum. Ef ég man rétt er í frumvarpinu eitthvað um það þegar Skipulagsstofnun, að fenginni tillögu frá Vinnumálastofnun, sendir sveitarfélagi bréf um tiltekna byggingu og framkvæmdir hefur sveitarfélagið hálfan mánuð til að svara því og ef sveitarfélagið svarar ekki er þögn sama og samþykki. Þarna er t.d. verið að gera kröfu um miklu meiri hraða heldur en lögaðilar í byggingariðnaði geta nokkurn tímann notið hjá sveitarfélagi sem þurfa oft að bíða svo vikum skiptir eftir að fá svör. Það má ekki gleyma því að það er mögulega verið að breyta deiliskipulagi sem sveitarfélagið hefur sett fram, kynnt fyrir íbúum sínum, með auglýsingum, með íbúafundum, kallað eftir sjónarmiðum og breytt eftir atvikum. Hvernig í ósköpunum á sveitarfélagið á þessum hálfa mánuði að geta kallað eftir og kynnt þetta fyrir íbúum? Eiga íbúar engan rétt?

Nú er ég farinn að hljóma eins og ég sé algerlega á móti þessu frumvarpi en það er ég ekki. Ég skil alveg viðleitni ráðherra og virði hans markmið í allri þessari vegferð. Það eina sem ég er að kalla eftir er að við vöndum okkur og stígum ekki stærri skref en við nauðsynlega þurfum til að minnka kröfurnar sem þessum viðkvæmu hópum verður gert að búa við og að við skemmum ekki þær framfarir sem þó hafa orðið í kröfu okkar Íslendinga til sómasamlegs og góðs húsnæðis.