154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir áhugavert innlegg hér frá hv. þm. Loga Einarssyni sem er menntaður arkitekt og hefur starfað í þeirri grein um árabil, sérstaklega þar sem hann kom inn á byggingarreglugerðina, hvernig hún er samansett hjá okkur. Hv. þingmaður nefndi þarna einmitt góð dæmi um hvað við erum að ganga lengra heldur en t.d. í Noregi. Þetta minnir okkur á það að við þurfum að einfalda þetta regluverk vegna þess að það er að stórum hluta rót vandans, þ.e. húsnæðisskorturinn í landinu gerir það að verkum að það þarf að byggja fleiri íbúðir, meira húsnæði, en við erum með regluverk sem er alla vega ekki til þess fallið að hvetja til þess að einstaklingar taki t.d. að sér að fara í húsbyggingu. Ég sjálfur þekki þetta persónulega og byggði nú lítið hús á minni lóð, eitthvað um 40 m², fyrir nokkrum árum. Þá þurfti ég að fá byggingarstjóra og þetta kostaði heilmikla upphæð, að mig minnir um hálfa milljón króna, að byggja svona lítið hús, að fá byggingarstjóra og það var ekki einu sinni brunatrygging inni í því. Ég reyndi að gera sem mest sjálfur þannig að það var engin þörf fyrir byggingarstjórann þannig séð en þarna er ég að segja það að það er verið að setja svolítinn stein í götu fólks, finnst mér, sem vill byggja sitt húsnæði, með íþyngjandi regluverki sem við þurfum svo sannarlega að taka til endurskoðunar að mínu mati.

En varðandi þetta frumvarp sérstaklega, herra forseti, þá hef ég lýst því yfir hér í andsvari að við verðum að hafa hér alveg nýjustu upplýsingar um áætlaðan fjölda þeirra sem sækja um hæli á næstu mánuðum og árum og þær liggja ekki fyrir. Það er verið að styðjast við eldri gögn hvað þetta frumvarp varðar, vegna þess, eins og ég sagði hér áðan, að það verða ákveðin vatnaskil hér með úrskurði kærunefndar í málefnum hælisleitenda frá Venesúela þar sem þeir standa frammi fyrir því að verða vísað úr landinu vegna þess að kærunefnd hefur úrskurðað að þeir eigi ekki að fá hér hæli eða vernd, alþjóðlega vernd, eins og sagt er. Það mun að sjálfsögðu hafa heilmikil áhrif á þetta vegna þess að það ófremdarástand sem hefur verið hér í þessum málaflokki, málefnum hælisleitenda, þessa gríðarlegu aukningu á mjög skömmum tíma, má að stórum hluta rekja til mikils fjölda og mikillar fjölgunar á umsóknum frá Venesúela og þar er það ekki ríkisstjórnin og ekki dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á því. Það er fyrst og fremst kærunefnd útlendingamála sem úrskurðaði á þann veg að þeir sem komu hingað frá Venesúela fengu nánast sjálfkrafa alþjóðlega vernd til fjögurra ára, svokallaða viðbótarvernd sem þýðir sömu réttindi og réttindi Íslendinga í velferðarkerfinu.

Auðvitað er það þannig í þessu eins og öðru að fréttirnar berast hratt út og það barst hratt út til Venesúela að þeir sem kæmu hingað ættu vísa fjögurra ára vernd í landinu, fjögurra ára dvalarleyfi. Auðvitað er það þá hvetjandi fyrir þessa einstaklinga að sækja til Íslands vegna þess að nágrannaþjóðirnar hafa ekki veitt þessa viðbótarvernd sem er ekki oft veitt nema í þá sérstaklega erfiðum tilfellum. Regluverkið hér hefur gert það að verkum að þessi fjöldi hefur streymt til landsins sem síðan hefur valdið gríðarlegu álagi á húsnæðismarkaðinn og leigumarkaðinn. Þess má geta hér, herra forseti, að dómsmálaráðherra er með frumvarp fyrir Alþingi um að regluverk í þessum málaflokki verði með sama hætti og á öðrum Norðurlöndum. Það er algerlega nauðsynlegt vegna þess að hælisleitendakerfið byggist á því að það sé samræmi í framkvæmd reglnanna á milli ríkja sem hafa undirgengist flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna um að taka á móti þeim sem eru að leita eftir vernd. Annars er hætta á því að kerfið bresti og þess vegna er afar mikilvægt í mínum huga, og ég hef sagt það bæði í ræðu og riti, að við samræmum þetta regluverk því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum og ég trúi því að við séum komin á þá braut og það sé orðinn hljómgrunnur fyrir því að svo verði.

Það er annað sem ég vildi nefna í þessari umræðu sem mér finnst mjög mikilvægt. Það eru sveitarfélögin. Móttaka flóttafólks á Íslandi, hælisleitenda, stendur og fellur með samstarfi við sveitarfélögin, að það samstarf sé mjög gott, samstarfið og samráðið. Þegar þetta frumvarp var lagt hér fram fyrr þá komu fjölmargar umsagnir frá sveitarfélögunum sem höfðu miklar áhyggjur af þessu frumvarpi þannig að það er eitthvað sem nefndin verður að fara vandlega yfir í sínum störfum. Og ég fagna því reyndar að í frumvarpinu er nú komið ákvæði þess efnis að ef sveitarfélag leggst gegn því að húsnæði sem lagt er til hér í þessu frumvarpi verði nýtt þá hafi í raun og veru sveitarfélagið síðasta orðið með það. Það er bara eðlilegt að slíkt ákvæði sé inni vegna þess að það eru sveitarfélögin sem þurfa að veita þjónustuna og við höfum bara séð það að sum sveitarfélög eins og t.d. Reykjanesbær hafa gefið það út opinberlega að þau séu komin að þolmörkum og geti ekki tekið við fleiri hælisleitendum. Þannig að við verðum að horfa í þetta.

Því miður hefur verið misbrestur á því að það sé haft gott samráð við sveitarfélögin og ég nefni bara nýjasta dæmið í þeim efnum. Það er Suðurnesjabær og þar stendur til að nýta húsnæði fyrir u.þ.b., held ég, 100 hælisleitendur, sem áður var hjúkrunarheimili. Þar hefur sveitarfélagið komið því á framfæri við okkur þingmenn kjördæmisins að það skorti mjög mikið á samstarf milli Vinnumálastofnunar og sveitarfélagsins. Vinnumálastofnun, eins og við þekkjum, sér um þjónustuna, þ.e. að veita hælisleitendum þjónustu og þá með samningum eftir atvikum við sveitarfélögin. En það hefur orðið mikill misbrestur á þessu. Suðurnesjabær hefur t.d. ekki haft nokkra hugmynd um það hvort það er að koma barnafólk í þetta húsnæði, einstaklingar sem þurfa aukna þjónustu vegna fötlunar eða slíkt.

Ég segi það, herra forseti, að það er bara lágmarkskurteisi að hafa samband við sveitarfélögin og upplýsa þau um hvers eðlis sá hópur er sem er að koma í þetta húsnæði og bara almennt, vegna þess að sveitarfélagið þarf að veita skólaþjónustu o.s.frv. Ég hef lagt áherslu á þetta við Vinnumálastofnun og ég hef meira að segja skrifað forstjóra Vinnumálastofnunar bréf þar sem ég hef hvatt stofnunina til þess að eiga gott samstarf við sveitarfélögin. Ég veit að Vinnumálastofnun hefur verið undir gríðarlegu álagi og það góða starfsfólk sem þar starfar hefur gert allt sitt besta en það er bara þannig að þessi málaflokkur er það viðkvæmur að það verður að passa upp á samstarf með þessum hætti. Þess vegna segi ég það að í þeirri nefndarvinnu sem fram undan er þá verður nefndin að horfa til þess hvaða augum sveitarfélögin líta þetta frumvarp og kalla til sín gesti og fara vandlega yfir það.

Ég vil bara kannski aðeins nefna að lokum, herra forseti, af því að hv. þm. Logi Einarsson kom einmitt inn á breytingarnar á húsnæðinu, að breyta iðnaðarhúsnæði o.s.frv., að það er náttúrlega kostnaðarsamt að fara í slíkar breytingar. Það eru, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, eðlilegar væntingar um það að þegar menn leggja í svona mikinn kostnað og síðan er þetta gistirými undir leyfum tímabundið — þegar því tímabili lýkur þá sitja menn uppi með eign sem hefur kannski verið lagt heilmikið í, heilmikill kostnaður, til að geta leigt hana sem íbúðarhúsnæði. Þá er sú freisting náttúrlega fyrir hendi að halda áfram að leigja það húsnæði. Þannig að við þurfum svolítið að horfa á þetta alla leið, er ekki sú hætta fyrir hendi þegar þessu tímabundna tímabili er lokið að það verði erfitt að snúa til baka? Þá erum við búin að opna fyrir ákveðna gátt sem okkur hefur ekki hugnast hingað til og það er eðlilegt að spyrja sig að þessu. Auk þess er það nú þannig að þetta má heldur ekki veikja tiltrú fólks á því að fylgja regluverki í byggingargeiranum. Við þekkjum það að oft og tíðum finnst okkur kannski byggingarreglugerðin vera heldur ströng og fólk kvartar yfir því að það sé lengi verið að afgreiða ákveðnar beiðnir o.s.frv. og það að sækja um byggingarleyfi getur tekið ótrúlega langan tíma. Þannig að fólk spyr sig náttúrlega hvort hér sé lagt upp með að hægt sé að fara að leigja húsnæði sem hefur ekki verið leyft að leigja hingað til sem íbúðarhúsnæði.

Þetta eru allt sjónarmið sem þarf að fara vandlega yfir í nefndarvinnunni sem fram undan er. Ég held að það sé mikilvægt að kalla alla þá til sem hafa hagsmuna að gæta í þessu og þá sérstaklega sveitarfélögin og svo að lokum að gögnin liggi nákvæmlega fyrir um hvernig menn sjá fyrir sér að þróunin á umsóknum um hæli á Íslandi verði á næstu mánuðum og misserum. Ég persónulega tel, og hef sagt það áður, að það muni verða breyting, það muni ekki verða þessi gríðarlega fjölgun sem við höfum verið að horfa upp á, það muni draga úr henni. Þá verður þörfin fyrir þetta húsnæði minni og þegar upp er staðið verður kannski ekki þörf fyrir þetta. Þetta er síbreytilegur málaflokkur og þar af leiðandi er mikilvægt að það liggi fyrir mjög raunhæfar spár og tölur um hvernig fjöldinn mun þróast á næstu misserum.