154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Meira en 1.000 börn hafa verið drepin og yfir 2.500 hafa slasast á síðustu 11 dögum í loftárásum Ísraela á Gaza-svæðið. Það þýðir að eitt barn á Gaza deyr á hverjum 15 mínútum. Börn eru þriðjungur þeirra sem hafa látist og slasast frá því að Hamas framdi grimmdarleg og óafsakanleg hryðjuverk í Ísrael. En sama hversu grimmdarleg hryðjuverk eru þá geta þau aldrei afsakað það að ráðast á almenna borgara, sér í lagi börn. Það að loka fyrir aðgengi að vatni og eldsneyti hefur einnig haft gríðarleg áhrif á börn á svæðinu. Nýburar og alvarlega veik börn á sjúkrahúsum á Gaza-svæðinu munu þjást eða látast nú þegar lyf, eldsneyti, rafmagn og vatn er á þrotum. Þessi börn eru ekki í stríði og hafa ekki framið nein hryðjuverk. Mannúðaraðstoð og birgðir til neyðarhjálpar eru til staðar við landamæri Gaza og Egyptalands en er neitað um aðgengi af Ísrael þrátt fyrir mikinn þrýsting frá alþjóðasamfélaginu.

Yfirvofandi er stórfelld innrás Ísraelshers inn á Gaza, árás sem mun orsaka dauða enn fleiri barna, árás sem mun stökkva 2 milljónum manna á flótta, árás sem mun orsaka eina verstu mannúðarkrísu í Miðausturlöndum í áratugi. Erum við Íslendingar tilbúnir að leggja enn meira af mörkum til að styðja við þá miklu mannúðaraðstoð sem þörf er á? Erum við tilbúin að taka á móti enn stærri hópi flóttamanna frá Palestínu en við höfum hingað til gert? Erum við tilbúin að fordæma á alþjóðavettvangi þá stríðsglæpi sem framdir eru gagnvart almennum borgurum á Gaza? (Forseti hringir.) Munum við vera tilbúin að setja á fót sams konar alþjóðlega tjónaskrá yfir stríðsglæpi og sett var á fót í vor fyrir Úkraínu? Þetta eru allt spurningar sem við þurfum að spyrja okkur sjálf og vera tilbúin að svara.