154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

efnahagsástand og áherslur fjármála- og efnahagsráðherra.

[10:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég ætla einfaldlega að fagna því að það er loksins einhver sem er að gefa út spil sem talar um langtímahugsun, því að það hefur ekki verið þannig hjá ríkisstjórninni. Við erum ekki búin að sjá neinar ákvarðanir í loftslagsmálum. Það er miklu frekar að losun hafi aukist á líftíma þessarar ríkisstjórnar. Við erum ekki að sjá neinar ákvarðanir í orkumálum. Við höfum ekki séð neinar ákvarðanir í heilbrigðismálum sem snerta raunverulega á þeim líffræðilega vanda og viðfangsefnum sem við stöndum frammi fyrir; fjölgun hjúkrunarrýma o.s.frv. Þannig að ég fagna því og hvet ráðherra hér til dáða.

Ég vil ítreka það að ég vil gjarnan sjá tillögur um aukið aðhald hjá ríkissjóði, um lækkun skulda, um það að einfalda regluverk, því að einföldun regluverks þýðir aukinn hagvöxt sem þýðir sterkari ríkissjóð. Það er þar sem við í Viðreisn munum halda ríkisstjórninni við efnið.

Ég vil undirstrika það að við höfum líka bent á auðlindagjöld á atvinnugreinar, hinar ósnertanlegu atvinnugreinar sem þessi ríkisstjórn hefur m.a. ekki komið í verk að setja á af því að þær eru einmitt ósnertanlegar. (Forseti hringir.)

Ég vil undirstrika það að við í Viðreisn munum ekki styðja frekari skattahækkanir á millitekjuhópa. Skattheimtan er nóg hér á Íslandi (Forseti hringir.) en samt er það þannig að við setjum minna en aðrar þjóðir í heilbrigðiskerfið. Það þarf betri stjórnun. Það þarf betri rekstur.