154. löggjafarþing — 18. fundur,  19. okt. 2023.

utanríkis- og alþjóðamál.

[10:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með nýtt hlutverk og óska honum velfarnaðar í því. Hæstv. ráðherra tekur við á viðsjárverðum tímum í alþjóðamálum og spurningar mínar lúta allar að því ástandi sem nú ríkir, stríði annars vegar í Úkraínu og hins vegar í Ísrael.

Fyrsta spurningin varðar samskipti við Rússland og getu okkar til að reyna að hafa áhrif á gang mála í Úkraínu þótt ekki væri nema til að mótmæla eins og kostur er hernaði Rússa þar. Telur hæstv. ráðherra að það hafi komið að gagni að loka sendiráði Íslands í Moskvu, ólíkt öðrum þjóðum, og ef ekki, telur hann koma til greina að hefja aftur starfsemi þar, eins og ég segi, þótt ekki væri nema til að við gætum betur beitt okkur gegn hernaðinum?

Spurning nr. 2 varðar ástandið á Gaza þar sem hryðjuverkasamtökin Hamas virðast ráða nánast öllu. Eftir hryðjuverk þeirra fyrir fáeinum dögum ákváðu margar Evrópuþjóðir að endurskoða þróunaraðstoð eða stuðning við Palestínu til að tryggja að sá stuðningur sem bærist frá þessum löndum rynni ekki í hendurnar á Hamas. Mun Ísland gera eitthvað svipað, meta það hvernig stuðningur við Palestínu nýtist og hvort hætta sé á að þessi hryðjuverkasamtök nýti sér hann?

Loks spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að nágrannalönd Ísraels muni taka við flóttamönnum frá Gaza-svæðinu, til að mynda Egyptaland sem á landamæri að þessu svæði.