154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

vopnalög.

349. mál
[15:05]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir sína framsögu hér á þessu máli. Ég hef talsverðan áhuga á málinu og var í ágætissamtali um það við fyrirrennara hennar í embætti. Það er margt sem er gott í þessu máli og ég held, og hef vakið á því athygli, að við getum ekki lokað augunum fyrir því hversu hraðar samfélagsbreytingar eru að verða og hversu mikilvægt það er að löggjöf, ábyrgð, geymsla, varsla, innflutningur og annað á skotvopnum sé í stöðugri endurskoðun, hvernig við viljum hafa hlutina, og er það vel.

Mig langaði að nota fyrra andsvar mitt til að spyrja hæstv. ráðherra, af því að nú vísar hún hér í sínu máli til þess sem hefur gagnast mjög vel á Norðurlöndunum og í Þýskalandi m.a., sem eru þessir opnu dagar þar sem fólk getur skilað inn skotvopnum án nokkurra afleiðinga. hvort hún sjái fyrir sér, af því að nú þekki ég ekki nákvæmlega hvernig það er í málinu, að hafa ákveðna þannig daga, eða hvort það geti bara verið alltaf. Vopn daga einhvern veginn uppi og það gerist reglulega, úr dánarbúum, úr alls konar aðstæðum, og fólk situr uppi með skotvopn sem það hvorki kærir sig um eða hefur nokkuð við að gera og vill geta skilað því þó að það sé þá hugsanlega ólöglegt eða rangt skráð vopn. Þá er mikil bót í því að fólk geti losað sig við slík skotvopn til lögreglunnar án nokkurra eftirmála.