154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

vopnalög.

349. mál
[15:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér spyr hv. þingmaður út í læknisvottorð og ráðherra verður að viðurkenna að mér er ekki að öllu kunnugt um hvaða kröfur eru lagðar þar til grundvallar. Hv. þingmaður nefnir bæði sjón og blóðþrýsting og ég held að það sé ágætt að veiðimenn sem ganga til rjúpna eða eru að stunda veiðiskap hafi góða sjón og blóðþrýstingur sé í lagi en alls ekki síður andleg og líkamleg heilsa.

Það sem við erum aftur á móti að gera í þessu frumvarpi er að við erum að bæta verulega eftirlit og skráningu. Við viljum vita hvar vopn eru geymd og við viljum ekki að neinn sé með vopn í sinni vörslu nema hann sé með skotvopnaleyfi. Það sem er verið að breyta núna, sem ég tel vera til góðs, er að þessi leyfi hafa verið gefin út til tíu ára en við erum með að breyta því til fimm ára. Einhverjum kann kannski að þykja það ruddalegt að hið opinbera sé að stytta gildistíma skotvopnaleyfis en tilgangurinn er að fólk einmitt uppfylli skilyrði til þess að meðhöndla og hafa í fórum sínum skotvopn. Ráðherra mun svo taka þessar ábendingar til sín varðandi læknisvottorð.