154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

vopnalög.

349. mál
[15:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er nefnt að það sé verið að ganga lengra. Ráðherra hafnar því. Sem dæmi þá er ekki heimilt í Svíþjóð að flytja inn sjálfvirk skotvopn á grundvelli söfnunar og hver og einn hefur ekki heimild til þess að flytja inn mörg skotvopn af sömu tegund. Í Noregi hefur verið farin sú leið að heimila eign á allt að 100 skotvopnum á grundvelli söfnunar, en nú eru Norðmenn að tilkynna breytingar og herðingu laganna hjá sér. Staðreyndin er einfaldlega sú að það eru flest lönd að herða reglur og lög um skotvopn og við erum á eftir. Við erum ekki að ganga hér fram fyrir skjöldu og ganga lengra, við erum einfaldlega á eftir löndum sem við viljum bera okkur saman við hvað varðar meðferð á skotvopnum, skráningu, vörslu og eftirlit.