vopnalög.
Virðulegi forseti. Þetta verður ekki löng ræða, ég ætlaði mér að fara í andsvar en var of seinn til þess. Ég ætla bara að fylgja aðeins eftir pælingunni um hversu langt er gengið. Ég sé að í greinargerð er talað um að skoðaðar hafi verið þær leiðir gagnvart þessari miklu fjölgun sjálfvirkra og hálfsjálfvirkra vopna sem eru í eigu safnara, að beita einhvers konar takmörkunum á borð við það að heimila innflutning á þeim forsendum að vopn séu gerð óvirk eða setja einhverjar skorður við því hvað fólk má eiga en svo er farin sú leið að loka fyrir þetta alveg. Ég vildi heyra aðeins um ástæðurnar fyrir þessu. Það má t.d. sjá í umsögnum í samráðsgátt að það er töluverður hópur fólks sem stundar söfnun á vopnum og þarna myndast ákveðin menning sem tengist t.d. skotfélögum og svona sögugrúski þannig að þarna er verið að ganga frekar hart gagnvart hagsmunum fólks. Ástæðurnar eru vissulega skiljanlegar, þetta er mjög ör þróun á skömmum tíma þannig að ég skil vel þörfina og áhugann á því að ná aðeins utan um þetta en ég vildi bara aðeins impra á þessu atriði, af hverju þessi leið er farin en ekki aðrar.