vopnalög.
Virðulegi forseti. Með breytingu á vopnalögum er verið að takmarka aðgengi að árásarvopnum og auka öryggi almennings hér á landi. Ég vil fá að taka það fram að í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá árinu 2021, um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum, var einmitt bent sérstaklega á að hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum hefði fjölgað gríðarlega mikið í íslensku samfélagi á stuttum tíma og þá, árið 2021, var því beint til þáverandi dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að taka regluverk á þessu sviði til skoðunar. Ráðherra er að því með framlagningu á þessu frumvarpi. Þetta varðar þjóðaröryggi en varðar líka öryggi íbúanna. Sömuleiðis höfum við fengið athugasemdir, vegna þess að í íslensku samfélagi er því miður töluverður fjöldi fólks sem tekur sitt líf sem er mjög hryggilegt, og þau samtök sem hafa unnið að þeim málum hafa bent á að það sé nauðsynlegt að takmarka aðgengi að skotvopnum með öllum tiltækum ráðum. Það erum við að gera með, eins og ég segi, eftirliti og skráningu og sjá til þess að við vitum hvar skotvopn á Íslandi eru, vitum hvað er mikið til, vitum hvar varsla þeirra er og að eingöngu fólk sem hefur skotvopnaleyfi sé með vörslu og beri ábyrgð á þessum skotvopnum.