154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

ákvörðun nr. 190/2022 um breytingar á XI. viðauka við EES-samninginn o.fl.

383. mál
[15:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra. Nú þarf maður að vanda sig enn um sinn að ávarpa með réttum hætti. Hæstv. ráðherra kom inn á það hér undir lok framsögu sinnar að ekki félli kostnaður á ríkissjóð eða lögaðila eða einstaklinga vegna þessa, ef ég skildi hann rétt. En mig langaði að spyrja varðandi 3. lið þar sem er fjallað um, með leyfi forseta, að koma á „nauðsynlegum tækniforskriftum og verklagsreglum fyrir samtengingarkerfi skráa“ — það er nú bara ekki einfalt að lesa þennan texta. En það að hann kosti ekki neitt — ég trúi því ekki þannig að mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar var framkvæmt mat á því hvort og með hvaða hætti kostnaður félli til? Það felst í orðum ráðherrans í framsögu hans. En mig langar engu að síður að biðja hæstv. ráðherra um að hnykkja á því að þarna sé raunverulega ekki að verða til kostnaður sem falli síðan á annaðhvort ríkisfyrirtæki, ríkissjóð eða lögaðila eða einstaklinga, að regluverkinu innleiddu, þá sérstaklega að þessari ákvörðun nr. 17/2023, um að koma á nauðsynlegum tækniforskriftum og verklagsreglum fyrir samtengingarkerfi miðlægra skráa.