154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

ákvörðun nr. 190/2022 um breytingar á XI. viðauka við EES-samninginn o.fl.

383. mál
[15:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það þarf að skoða gerðirnar hverja fyrir sig. Í þessari þingsályktunartillögu eru dæmi um gerðir sem geta haft einhvern kostnað í för með sér eins og á við um reglugerð um að efla öryggi kennivottorða. Þar er t.d. gert ráð fyrir því að það komi gjald fyrir útgáfu nafnskírteina í gjaldskrá Þjóðskrár Íslands sem taki tillit til þess kostnaðar sem verður við útgáfu slíkra skilríkja þannig að gjaldtakan standi undir kostnaði. Það má gera ráð fyrir því varðandi þá tilskipun sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um að það geti hlotist nokkur kostnaður af innleiðingunni. Þó er ekki búið að ljúka endanlegu kostnaðarmati sem verður að framkvæma í tengslum við framlagningu frumvarps menningar- og viðskiptaráðherra. En þetta er ekki mál sem menn meta svo að hafi í för með sér neinn teljandi kostnað til lengri tíma þó að það geti birst í frumvarpinu einhver áætlaður kostnaður til skamms tíma vegna breytingar sem þurfi að gera.