154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt.

61. mál
[16:06]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Það er mér sönn ánægja að vera meðflutningsmaður á þessu máli. Við getum gert svo miklu betur þegar kemur að bæði landgræðslu og skógrækt. Þar þurfum við að vinna saman. Það er svo sannarlega þannig að skógrækt er eitt af því sem hjálpar til við kolefnisbindingu. En hún gerir líka landið okkar mun fegurra og stundum líka miklu betra að búa í, vegna þess að trén hafa jú líka ákveðin áhrif á vind og veður. Ég veit það bara sjálfur úr Kjósinni. Þegar sumarbústaður afa míns og ömmu var byggður þar fyrir 50 árum síðan var dálítið vindasamt á melunum en í dag skiptir eiginlega engu máli hvernig veðrið er þegar maður kemur þangað vegna þess að trjágróðurinn sem var gróðursettur í gegnum áratugina ver hreinlega bústaðinn og allt þar í kring fyrir öllum vindi.

Það þarf svona átak og það er nú einu sinni þannig að við þurfum oft að setja okkur háleit markmið. Hér fyrir nokkrum árum síðan, nánar tiltekið 2007, var byrjað á starfi í Afríku sem var byggt á hugmyndum friðarverðlaunahafa Nóbels árið 2004, Wangari Maathai, sem lagði það til að gróðursetja 1 milljarð trjáa í Afríku og byggja þannig stóran grænan vegg sem sæist utan úr geimnum; háleit markmið en ganga ágætlega. Það var byrjað 2007 og talið er að eftir sjö ár, árið 2030, muni það markmið nást að gróðursetja milljarð trjáa í Afríku. Það væri ekkert óraunverulegt fyrir okkur að setja niður, hvað eigum við að segja, milljón tré á ári ef við settum okkur þessi markmið. Við erum tæplega 400.000 og hver og einn þyrfti að setja niður tvö og hálft tré. Það er nú ekki mikið.

Við þurfum líka að virkja samfélagið allt þegar kemur að kolefnisbindingunni og í því að takast á við loftslagsvána. Ef við getum farið og gróðursett tré og síðan eftir einhver ár eða áratugi geta börnin okkar bent og sagt: Pabbi minn gróðursetti þessi tré — eins og ég hef reyndar sagt dálítið oft við börnin mín þegar við förum í átt að Gullfossi og Geysi þar sem faðir minn var í því að gróðursetja tré í Haukadal þegar hann var ungur. Það getur verið hluti af okkar framtíð að benda börnum okkar á hvað við lögðum fram í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Ég vona að þetta mál, sem nú er flutt í fimmta sinn, fái þá meðferð innan þingsins sem góð mál ættu að fá, sem er einfaldlega sú að hleypa því í gegnum nefndir. Það er ekki verið að óska eftir miklu. Það er bara verið að fela ráðherra í samráði við aðra ráðherra og í samstarfi við stjórnvöld, bændur, Land og skóg, atvinnulíf og almenning að miða að því að auka þátttöku. Að það þurfi að flytja þetta í fimmta sinn er skömm og við á Alþingi þurfum að breyta því. Ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd og hv. formann hennar til þess að láta þetta góða þingmannamál fara í gegn og það verði ekki skiptimynt í einhverjum þinglokasamningi. Trén eiga ekki að vera einhver skiptimynt í þinglokasamningi.