nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóður ferðaþjónustunnar.
Herra forseti. Þetta er bara hárrétt. Varðandi gagnaöflunina þá kem ég aftur inn á mikilvægi þess að átta sig á þessu mikilvægi gjaldeyristekna í ferðaþjónustunni og flugrekstrinum sem fellur undir þennan lið, hvaða efnahagsáhrif þetta hefur raunverulega á íslenskt samfélag varðandi krónuna og slíka þætti. Það væri mjög margt fróðlegt hægt að skoða þar. Þegar við erum að reyna að hámarka tekjur samfélagsins af ferðaþjónustunni og gera hana sem arðbærasta og arðsamasta þá er mikilvægt að það séu gerðar grunnathuganir og rannsóknir, að reyna einmitt að átta sig á samhengi hlutanna, hvernig hlutirnir virka í okkar hagkerfi sem snúa að þessu.
Svo vil ég náttúrlega nefna eitt verkefni, svo maður komi því nú að hér, varðandi þjóðhagslegan ábata íslensks samfélags, sem er að skoða það að nýta betur ákveðin svæði í íslenskri ferðaþjónustu, efla getu þeirra með betri dreifileiðum og betri samgöngum þannig að þau myndu nýtast allt árið eins og á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi. Þar myndu liggja stærstu tækifærin til að ná einmitt fram þessum þjóðhagslega ábata samfélagsins með að nýta þá innviði sem nú þegar hefur verið fjárfest í, í staðinn fyrir að vera alltaf að byggja nýtt og nýtt hér á suðvesturhorninu, bæta þar í ferðamannastrauminn þar sem nýtingin er náttúrlega á mörgum innviðum orðin 100%, má segja. Hér áður fyrr var talað um Ísland allt árið en í um tíu ár þá hef ég alltaf sagt að mottóið eigi að vera: Allt Ísland, allt árið. Það á að vera grunnstefið. Við þurfum, í gegnum tölfræði og rannsóknir, að ýta undir þessa þróun og gera þetta sem allra best.