154. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2023.

vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga.

485. mál
[12:54]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. forsætisráðherra og ávarpa Grindvíkinga beint.

Þið megið vita að þjóðin öll stendur með ykkur og ég veit að þingheimur mun sýna það í verki að það er okkar skylda að standa með íbúum Grindavíkur. Þar er samstaða okkar alger núna, þvert á flokka. Þetta eru mjög erfiðir tímar og það er ógerningur að setja sig í spor þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín í skyndi að kvöldlagi á föstudaginn eftir skjálftana sem á undan höfðu gengið. Óvissan, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á hér áðan, vegur auðvitað algerlega að grunnþörf fólks fyrir öryggi. Þó að fæst okkar geti skilið þessa tilfinningu til fulls þá kunnum við að takast á við ógn náttúruafla með samstöðu þjóðar. Við Íslendingar höfum gert þetta áður. Á tímum sem þessum stöndum við öll saman og þétt við bak samlanda okkar, Grindvíkinga.

Ég vil bæta hér við, líkt og áður hefur komið fram, að þakklæti okkar til viðbragðsaðila er djúpt á tímum sem þessum. Við búum auðvitað að gífurlegri fagmennsku þar, þekkingu og algerri ósérhlífni sem er ómetanleg. Ég vil líka þakka landsmönnum öllum sem leggja sitt af mörkum, hvort sem það er með því að veita samborgurum sínum húsaskjól eða með öðrum hætti.

Forseti. Þetta er ekki pólitískt eða flokkspólitískt mál að því leytinu að það kemur ekkert annað til greina en að standa með Grindvíkingum. Við erum þannig samfélag og samtryggingin er það sem gerir okkur að sterku samfélagi og veitir líka fólki von þegar svona áfall ríður yfir. Við vonum auðvitað það besta en hvernig sem málum vindur fram mun Samfylkingin styðja stjórnvöld í því verkefni sem nú er fyrir höndum, að virkja samtrygginguna til stuðnings Grindvíkingum og öðrum sem kunna að verða fyrir tjóni af völdum náttúruvár á Reykjanesskaga.

Þetta lagafrumvarp um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga er auðvitað aðeins fyrsta viðbragð á Alþingi við þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin. Landsmenn munu líta til þess að við tryggjum lífsviðurværi fólks sem hefur þurft að flýja heimili sín. Andlega og félagslega áfallið er nógu alvarlegt þó að fjárhagslegar áhyggjur bætist ekki ofan á. Vissulega eigum við Atvinnuleysistryggingasjóð, sem hér hefur verið komið inn á, en við vitum það vel að grunnbætur eru ekki háar. Við vitum líka að hámark tekjutengingar atvinnuleysistrygginga er heldur ekki hátt og það varir aðeins í þrjá mánuði. Það er heldur ekki svo að þó að atvinnuleysi mælist lágt í landinu þá geti þúsundir manna gengið í hvaða störf sem er í þessari stöðu eins og ekkert sé. Það reynir verulega á samtrygginguna okkar á tímum sem þessum. Við fáum hraðsoðna innsýn inn í hvernig sameiginlegu kerfin okkar raunverulega standa. Almannavarnir hafa sýnt styrk sinn á síðustu árum og núna á síðustu dögum sömuleiðis.

Ég treysti því, virðulegi forseti, að það verði ráðist í þessa vinnu nú á næstu dögum og vikum til að tryggja virðingarverða afkomutryggingu fyrir Grindvíkinga. Sú vinna mun eflaust vekja okkur til umhugsunar um hvar treysta megi sameiginlegu kerfin okkar fram á veginn fyrir fleiri sem þurfa nú þegar að reiða sig á þau.

Svo að ég segi það bara aftur hér að lokum: Hugur okkar er hjá Grindvíkingum á þessum erfiðu tímum. Samstaða okkar með íbúum Grindavíkur er algjör. Það verður þingheimur að sýna í verki á næstu dögum og vikum.