154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:07]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir að vekja máls á vöxtum, verðbólgu og samspili þessara þátta við húsnæðismál. Sömuleiðis vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fyrir hennar svör hér. Að mínu mati er stefna ríkisstjórnarinnar skýr og styður við peningastefnu Seðlabankans. Raunhæf og ábyrg fjármálastefna sem gagnast fólkinu í landinu snýst um forgangsröðun. Það dylst engum að það er flókið að forgangsraða þegar verðbólgan er eins og hún er. Þrátt fyrir það tel ég að mikilvægustu málaflokkarnir hafi verið í forgrunni síðustu ár. Við höfum með aðgerðum mætt þeim hópum samfélagsins sem verða fyrir mestum áhrifum af verðbólgunni. Ríkisstjórnin hefur á miðju ári síðustu tvö ár ráðist í hækkanir í gegnum almannatryggingar, t.d. með hækkun leigubóta og breytingum á barnabótum sem ná nú til fleiri fjölskyldna en áður. Þá er ýmislegt í bígerð sem mun bæta stöðu annarra hópa sem hafa minna á milli handanna. Þar vil ég sérstaklega koma inn á heildarendurskoðun á málefnum örorkulífeyrisþega sem ég held að verði eitt stærsta skrefið okkar á þessu kjörtímabili til að jafna kjör í samfélaginu.

Hvað húsnæðismálin varðar er stefnt að því að tvöfalda stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og byggja 2.000 íbúðir á næstu tveimur árum. Þá eru einnig áform um að horfa til frekari fjárheimilda til hlutdeildarlána, sem aftur eru aðgerðir sem nýtast ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á fasteignamarkaðnum. Það eru teikn á lofti um að verðbólgan sé að lækka. Við fögnum því og höldum áfram á sömu braut.