154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

Afleiðingar hárra vaxta fyrir heimilin í landinu.

[16:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hér er sagt að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar styðji við peningastefnuna, að það séu teikn á lofti um að verðbólgan sé að lækka — tveimur árum seinna. Höfum það aðeins í huga hvað aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa gert á þessum tveimur árum. Nákvæmlega ekki neitt. Það segir sitt. Þegar allt kemur til alls þá erum við að glíma við efnahagslegt vandamál. Vissulega, eins og hefur komið fram hérna, erum við að glíma við gjaldeyrisvandamál, gjaldeyririnn er hluti af þessu. Það er ekki töfralausn að skipta bara um gjaldeyri eða setja fastgengisstefnu eða eitthvað svoleiðis. Það þarf annað að fylgja á eftir af því að efnahagurinn er eins og hann er. Það er verðbólga í hagkerfinu. Það er alltaf talað um kökuna, efnahagskökuna og að við þurfum að stækka kökuna. En verðbólga þýðir í rauninni að kakan stækkar að rúmmáli en mest af því er bara loft. Þegar hún er skorin er það eins og þegar gott brauð er skorið, það er tómt í miðjunni og maður pælir í því hvað maður hafi eiginlega verið að kaupa. Það er verðbólga þegar allt kemur til alls. Verðbólga er í rauninni tilfærsla, kakan er endurskorin, tilfærsla frá þeim sem borga fyrir til þeirra sem selja, vörurnar þeirra hækkuðu í verði. Það er því ekki nóg að segja bara að stöðugleiki náist með einhverju launa- og ríkisútgjaldaaðhaldi o.s.frv., heldur er það líka kostnaðar- og gróðastarfsemin sem er þar á bak við sem veldur í rauninni verðbólgunni þegar allt kemur til alls. Verðbólgan með verðtryggingu færir síðan líka ráðstöfunartekjur frá heimilum til fjármagnseigenda. Þannig erum við að glíma við tvöfaldan vanda þar sem annars vegar eru heimilin að borga fyrir verðbólguna, borga fyrir vörur sem eru að hækka í verði til þeirra sem eru að selja, til atvinnustarfsemi og ýmislegt svoleiðis, og hins vegar til fjármagnseigenda sem eru að lána, í gegnum verðtryggingu og í rauninni líka í gegnum hærri vexti. Við þurfum að hugsa um þetta í stóra samhenginu. (Forseti hringir.) Þetta er mikið vandamál og það er skrýtið að við stillum þessu upp á þann hátt að það sé hægt að seilast í ráðstöfunartekjur heimilanna eftir að hafa gert samninga.