kvikmyndalög.
Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni kærlega fyrir bæði þann áhuga og elju sem hann hefur sýnt íslenskri kvikmyndagerð og íslenskri tónlist. Fyrir ráðherra er algerlega ómetanlegt að hafa þingmenn sem sýna skapandi greinum svona gríðarlega mikinn áhuga enda höfum við starfað saman á þeim vettvangi. Varðandi þennan viðbótarflokk þá er það þannig að við erum áfram með Kvikmyndasjóð. Það eru ekki auknar fjárveitingar inn í Kvikmyndamiðstöð en það sem þetta gerir er að hjálpa Kvikmyndamiðstöð að taka þátt í ákveðinni fjármögnun sjónvarpsþáttagerðar sem áður var ekki og koma að þessari lokafjármögnun. Gerist það til að mynda að sjónvarpsþáttagerðin — þetta er stundum samstarfsverkefni milli Norðurlandanna — og verkefnið skili hagnaði, rennur hann inn í Kvikmyndamiðstöð. Þetta er því mjög jákvætt fyrir alla sköpun í landinu. Það þurfti að gera þetta með lagabreytingu og hér er sú lagabreyting ásamt öðrum lagabreytingum. Ég mun koma að þessu varðandi stafræna efnið eftir skamma stund.