kvikmyndalög.
Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Sem þessi fámenna þjóð höfum við kannski verið þekktust fyrir það frá landnámi að búa að ríkri sagnahefð. Einu sinni voru það Íslendingasögurnar sem báru hróður okkar víðast og síðan annars konar formgerðir. Mér leikur forvitni á að vita hvort menningar- og viðskiptaráðherra sæi fyrir sér hvata fyrir aðila í viðskipta- og fjármálalífi á Íslandi til að koma að styrkingu geirans. Mig langar að vita hvort ráðherrann sæi fyrir sér að hægt væri að innleiða hvata í formi skattafslátta eins og þekkist víða, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem kvikmyndagerðin hefur verið í hvað mestum blóma lengur en annars staðar, allt byggt meira eða minna á því að menn fjárfesta í þessari tegund menningarlífsins sem stundum verður að ábatasömum rekstri, og hvort við gætum hvatt fleiri til að leggja fé til þessa geira sagnahefðarinnar, kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar, með skattalegum hvötum. Það myndi að mínu mati geta stóreflt það sem fyrir er og er í blóma. Það væri hægt að vísa í margar fyrirmyndir í nágrannalöndum og samstarfslöndum okkar hvað þetta varðar.