154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kvikmyndalög.

486. mál
[16:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í 2. gr. er talað um fræðslu og í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að bæta við verkefni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands í 3. tölul. 3. gr. laganna að miðstöðin efli kvikmyndafræðslu á Íslandi. Í kvikmyndastefnu er Kvikmyndamiðstöð Íslands ætlað víðtækara hlutverk en áður, meðal annars að sinna kvikmyndauppeldi og mynd- og miðlalæsi.“

Það er ekkert smáræði. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að þetta kosti nokkurn skapaðan hlut hér í kaflanum um mat á áhrifum í frumvarpinu. Það hlýtur að kosta eitthvað. Ég er í fjárlaganefnd og renni oft yfir þessi frumvörp sem koma fyrir þingið og mat á áhrifum, verð ég að segja, er yfirleitt frekar rýrt þegar kemur að greiningu á kostnaði. Ég held að það sé einhver kostnaður sem fylgir því að búa til námsefni, uppfæra það og viðhalda því og stuðla að miðlalæsi, hvorki meira né minna, það er ekkert smáræðis verkefni núna þessa dagana. Ef ráðherra gæti frætt okkur um hvernig það gengur þá væri það vel þegið.