154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kvikmyndalög.

486. mál
[16:40]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Spurt er að því hvort það felist aukinn kostnaður í þessum breytingum. Við erum í raun og veru að lögfesta breytingarnar. Við höfum komið þessum breytingum á fyrr með kvikmyndastefnunni og Kvikmyndamiðstöð hefur verið að framfylgja stefnunni en nú erum við í raun og veru að lögbinda og fínpússa alla lagasetningu sem tengist þessari stefnumótun og fylgja henni frekar eftir. Kvikmyndastefnan er fyrsta stefnan þar sem við erum með heildarsýn á málaflokkinn, ég var ekki með svona þingsályktunartillögu eins og við höfum verið að gera, og svo hefur þessi stefnumótun þróast út í þetta til að uppfylla allt sem tengist þinginu og til að þingið sé upplýstara. Við erum í raun og veru bara að styrkja stefnuna með þessari lagasetningu.

Ég vil líka nefna það, virðulegi forseti, að þetta tók ákveðinn tíma af því að það var ákveðið flækjustig í sumu sem tengist þessari lokafjármögnun. Við höfum því verið í nokkurn tíma að klára löggjöfina þannig að sumt af þessu er komið til framkvæmda og er fjármagnað innan þess fjárlagaramma sem Kvikmyndamiðstöð hefur. En ég skil vel að þetta orki tvímælis þegar það kemur svona eins og það er.