154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[16:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra laga um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða. Frumvarpið er á þskj. 574 og er 507. mál þingsins. Með frumvarpinu er lagt til að fyrsta skrefið verði stigið í lögfestingu á nýju tekjuöflunarkerfi af ökutækjum og eldsneyti með upptöku kílómetragjalds frá og með 1. janúar 2024 vegna notkunar rafmagns- og vetnisbíla annars vegar og tengiltvinnbíla hins vegar á vegakerfinu. Til einföldunar er lagt upp með að lögin verði í upphafi á árinu 2024 einskorðuð við fólks- og sendibíla.

Fyrirhugað er að síðara skrefið verði stigið með framlagningu frumvarps á næsta vorþingi um kílómetragjald vegna notkunar allra annarra ökutækja á vegakerfinu, m.a. bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, með gildistöku á árinu 2025. Samhliða verði lagt fram frumvarp um breytingar og endurskoðun á þeim lagabálkum sem gilda nú um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, þar með talið á vörugjöldum af eldsneyti, þar sem þessi eldri gjöld muni eftir atvikum lækka eða falla niður.

Innleiðing á nýja tekjuöflunarkerfinu í tveimur skrefum gerir kleift að fyrsta árið verði verkefnið smærra í sniðum þar sem það nær þá einungis til hluta bílaflotans. Með því móti verður einnig hægt að draga lærdóm af framkvæmd þess og endurbæta það með tilliti til reynslu og ábendinga gjaldskyldra aðila. Áform um lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 4.–16. október og drög að frumvarpinu voru kynnt til umsagnar í samráðsgáttinni daganna 3.–10. nóvember.

Fjölgun vistvænna og sparneytinna bifreiða hefur leitt til þess að skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti hafa rýrnað umtalsvert og munu halda áfram að lækka á næstu árum verði engar breytingar gerðar. Samhliða þeirri þróun hefur myndast misræmi í núverandi gjaldtökukerfi milli þeirra sem nýta samgönguinnviðina. Annars vegar eru tekjur af gjaldtöku á ökutæki og eldsneyti, einkum vörugjöld, teknar að fjara smám saman út sökum þess að fram hafa komið nýir orkugjafar og sparneytnari ökutæki. Hins vegar hafa stjórnvöld markað þá stefnu að auka notkun hreinna orkugjafa í samgöngum og hraða þannig orkuskiptum, m.a. með verulegum skattastuðningi síðustu ár.

Það liggur því fyrir að eigendur rafmagnsbíla greiða þannig eðli málsins samkvæmt hvorki vörugjöld né kolefnisgjald af eldsneyti og einungis lágmarksbifreiðagjald. Þá má nefna að eigendur rafmagnsbíla greiddu ekki vörugjöld við kaup á nýjum bíl til loka árs 2022 og greiða nú einungis 5% vörugjald vegna innflutnings slíkra bifreiða eftir samþykkt laga nr. 129/2022, um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023. Einnig liggur fyrir að eigendur rafmagnsbíla hafa notið niðurfellingar virðisaukaskatts af kaupverði að hluta eða öllu leyti auk 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af heimahleðslustöðvum og uppsetningu þeirra. Ört stækkandi hópur þeirra sem eiga og reka bifreiðar hefur því verið að greiða afar lítið fyrir afnot sín af samgöngukerfinu. Fyrir vikið stendur Ísland hins vegar flestum þjóðum framar í orkuskiptum í vegasamgöngum að undanskildum Noregi.

Á sama tíma er fyrir hendi viðvarandi þörf fyrir, og áform um, að byggja upp og viðhalda vegakerfinu. Sú þörf mun síst minnka í fyrirsjáanlegri framtíð með vaxandi íbúafjölda, grósku í ferðaþjónustu og tilheyrandi umferð. Við þessari þróun þarf að bregðast og innleiða nýtt einfaldara, gagnsærra og sjálfbærara fyrirkomulag gjaldtöku til framtíðar. Þannig verður tryggð betri samsvörun á milli slíkra tekna og áframhaldandi uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins.

Nýtt tekjuöflunarkerfi á rætur að rekja til sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf frá nóvember 2021, en þar fram kemur að framtíðartekjuöflunarkerfi ríkissjóðs vegna umferðar og orkuskipta verði mótað og innleitt á kjörtímabilinu. Í febrúar á þessu ári var sett á fót sameiginleg verkefnastofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins til að móta tillögur um nýtt fyrirkomulag, en forsætisráðuneytið á einnig aðild að stýrihópi vegna verkefnisins. Í þeirri vinnu hefur komið fram að eftirsóknarvert þyki að nýtt fyrirkomulag feli í sér heildstætt og samræmt gjaldtökukerfi á landsvísu þar sem tekjulindir og hagrænir hvatar falli vel saman innbyrðis frekar en að rekast á. Einnig að gagnsæi og einfaldleiki kerfisins verði sem mestur gagnvart greiðendum og að gjaldtaka verði notendavæn og yfirbygging sem minnst þannig að óhagræði og innheimtukostnaði verði haldið í lágmarki. Megináherslan í nýju tekjuöflunarkerfi felist í því að gjaldtakan færist í meira mæli á afnot af samgönguinnviðum þannig að þeir borgi sem noti. Sú leið er í samræmi við framtíðarsýn stjórnvalda víða um heim um gjaldtöku vegna notkunar á samgönguinnviðum.

Orkuskiptin og aukin kaup landsmanna á vistvænum ökutækjum, þar með talið rafmagnsbílum, marka jákvæða þróun og eru til marks um grundvallarbreytingu í neysluhegðun og umhverfisvitund. Orkuskiptin skapa hins vegar einnig áðurnefndar áskoranir fyrir fjármögnun samgönguinnviða á Íslandi þar sem þau fela í sér að tekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti munu að óbreyttu halda áfram að þverra eftir því sem betri árangur næst í orkuskiptum. Má telja að þróunin í þessum efnum hafi verið það hröð að ekki megi dragast lengur að bregðast við. Þetta kallar á nýja löggjöf til að innleiða nýtt fyrirkomulag gjaldheimtu, sem verði sjálfbærara til framtíðar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbílar sem skráðir eru sem fólks- eða sendibílar í ökutækjaskrá séu gjaldskyldir. Jafnframt er gert ráð fyrir að bifreiðar sem fluttar eru tímabundið hingað til lands í að hámarki í tólf mánuði, til að mynda þær bifreiðar sem koma með ferðamönnum hingað til lands með ferjunni Norrænu verði gjaldskyldar. Gengið er út frá því til einföldunar að á upphafsárinu á árinu 2024 verði miðað við fólks- og sendibifreiðar sem eru 3.500 kg. eða léttari að heildarþyngd falli undir kílómetragjaldið, en rannsóknir sýna að þær bifreiðar valdi svipuðu vegsliti. Á árinu 2025, þegar þyngri ökutæki á borð við flutningabíla og hópferðabifreiðar verða teknar inn í kerfið, verður hins vegar litið til þess að gjaldskyldan taki mið af þyngd ökutækja og þar með vegsliti.

Þá er gert er ráð fyrir því að meginreglan verði sú að eigendur þeirra gjaldskyldu bifreiða sem skráðar eru í ökutækjaskrá hér á landi verði gjaldskyldir. Þó er gert ráð fyrir því að ef annar aðili en eigandi hefur umráðarétt yfir bifreið, t.d. út frá svokölluðum kaupleigusamningum fjármögnunarfyrirtækja, skuli slíkir aðilar vera gjaldskyldir. Talið er rétt, út frá einfaldaleika og skilvirkni, að þeir umráðamenn séu gjaldskyldir en ekki eigendur þar sem það stendur þeim umráðamönnum næst að halda utan um og skrá inn kílómetrastöðu hlutaðeigandi bifreiðar, út frá slíkum samningum. Þá er gert ráð fyrir því að innflytjendur bifreiða sem ætlaðar eru til tímabundins aksturs hér á landi verði gjaldskyldir, t.a.m. ferðamenn sem og erlend fyrirtæki sem koma tímabundið hingað til lands með bifreiðar sínar.

Í frumvarpinu er gengið út frá því að fjárhæð kílómetragjalds verði 6 kr. á hvern kílómetra þegar um er að ræða rafmagnsbíla og vetnisbíla og 2 kr. á hvern kílómetra þegar um er að ræða tengiltvinnbíla. Talið er rétt að gjaldið sé mismunandi hátt á árinu 2024 þar sem tengiltvinnbílar geta bæði notað rafhlöðu og jarðefnaeldsneyti. Drægni rafhlaðinna tengiltvinnbíla og þar með fjárhæð þeirra vörugjalda sem eigendur slíkra bifreiða bera er mjög misjöfn og því var afráðið að veita þeim ríflegan afslátt á þessu fyrsta ári, tilraunaári nýs gjaldtökukerfis. Þá er gert ráð fyrir, til einföldunar, að meginreglan verði sú að innflytjendur þeirra bifreiða sem flytja inn bifreið tímabundið til landsins greiði sérstakt daggjald vegna notkunar hér á landi sem skuli vera 600 kr. á dag vegna rafmagns- og vetnisbíla og 200 kr. á dag vegna tengiltvinnbíla. Þeir munu þó hafa möguleika á því að greiða kílómetragjald samkvæmt álestri á stöðu akstursmælis.

Stafrænt Ísland hefur unnið náið með Skattinum, Fjársýslunni, Samgöngustofu og fleiri aðilum að innleiðingu á einföldu skráningarviðmóti vegna kílómetragjaldsins fyrir almenning og fyrirtæki. Hugmyndin er sú að kerfið verði einfalt fyrir notendur þannig að einstaklingar og fyrirtæki geti skráð áætlaðan akstur og síðan skráningu á kílómetrastöðu í sérstakt smáforrit sem auðvelt verður að nota í öllum snjalltækjum. Sá möguleiki verður þó fyrir hendi að skráningin fari fram á sérstöku vefsetri á Ísland.is. Þeim aðilum sem ekki geta nýtt sér rafræna skráningu munu þó ávallt geta nýtt sér hefðbundinn skráningarmáta hjá Skattinum, eða farið með bíl í álestur á skoðunarstöð til skráningar á kílómetrastöðu. En hugmyndin er að viðmótið verði eins einfalt og notendavænt og kostur er fyrir gjaldskylda aðila. Áætlun og greiðsla fari þannig fram með svipuðum hætti og gjald sem greitt er fyrir þjónustu veitu- og orkufyrirtækja vegna sölu á heitu vatni og rafmagni til heimila og fyrirtækja sem einstaklingar og fyrirtæki þekkja vel.

Í frumvarpinu er lagt upp með að greitt verði fyrirfram upp í álagningu kílómetragjalds í hverjum og einum almanaksmánuði. Meginreglan verður sú að ríkisskattstjóri gerir í upphafi tillögu að áætlun um meðalakstur á mánuði, út frá tveimur síðustu skráningum á kílómetrastöðu, sem gjaldskyldir aðilar geta í framhaldinu breytt ef þeir kjósa. Ef um kaup á bifreið er að ræða eða ef eingöngu ein skráning á kílómetrastöðu er til skal þó áætlun miðuð við fyrirfram skilgreindan kílómetrafjölda sem ávallt er þó hægt að breyta af hálfu gjaldskylds aðila. Gjaldskyldir aðilar greiða síðan mánaðarlega fyrirfram upp í álagningu kílómetragjalds út frá samþykktri áætlun þar um.

Gert er ráð fyrir því að skráning á kílómetrastöðu fari fram að lágmarki einu sinni á hverju almanaksári af hálfu gjaldskylds aðila eða skoðunarstöðvar. Þegar slík skráning á sér stað fer fram uppgjör og álagning á liðnum heilum almanaksmánuðum og dregst þá fyrirframgreiðslan frá við álagningu kílómetragjaldsins. Gjaldskyldur aðili getur þó alltaf skráð inn nýja kílómetrastöðu þegar 30 dagar eru liðnir frá síðustu skráningu hans. Það er því eingöngu skráning gjaldskylds aðila eða faggiltrar skoðunarstöðvar sem verður til þess að álagning og uppgjör á sér stað á því tímabili sem um ræðir.

Þó er talið rétt í eftirlitsskyni og til þess að tryggja eins og kostur er eftirlit með kílómetrastöðu, út frá akstursmæli þeirra gjaldskyldu bifreiða sem skráðar eru í ökutækjaskrá hér á landi og falla undir lögin, að skráning á kílómetrastöðu akstursmælis fari einnig fram hjá söluaðilum bifreiða í atvinnuskyni, t.d. vegna ábyrgðar- og þjónustuskoðana eða viðgerðum í atvinnuskyni, svo sem út frá tjónaviðgerðum út frá skilmálum vátryggingafélaga. Þessar skráningar á kílómetrastöðu eru hins vegar eingöngu gerðar í eftirlitstilgangi út frá skatteftirliti og skoðun á almennri framkvæmd kílómetragjaldsins.

Gert er ráð fyrir því að frumvarpið öðlist gildi nú þegar fyrir þær bifreiðar sem skráðar eru hér á landi, en hins vegar er gert ráð fyrir að þau ákvæði frumvarpsins sem varða tímabundinn innflutning bifreiða hingað til lands taki gildi 1. júlí 2024 fyrir rafmagns- og vetnisbíla og 1. janúar 2025 vegna tengiltvinnbíla, þar sem framkvæmd vegna eftirlits, skráningar og viðmóts tekur lengri tíma þegar um slíkar bifreiðar er að ræða.

Í frumvarpinu er loks að finna þrjú ákvæði til bráðabirgða sem varða fyrstu skráningu og fyrirframgreiðslu kílómetragjalds eftir gildistöku frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir að þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafi jákvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs og að á árinu 2024 verði tekjuauki af nýju kerfi fyrir hreinorku- og tengiltvinnbíla rúmlega 3 milljarðar kr. Þá mun samþykkt frumvarpsins fela í sér kostnað við uppsetningu og rekstur kerfa hjá Skattinum. Í frumvarpinu er að finna mat á ýmsum öðrum áhrifum, m.a. á samfélagslegum áhrifum og áhrif eftir tekjuhópum og búsetu. Þar sem eignarhald á rafmagnsbílum er algengast í hærri tekjutíundum er gert ráð fyrir því að kílómetragjaldið hafi mest áhrif á einstaklinga í hærri tekjutíundum í krónum mælt. Þó má gera ráð fyrir að hlutdeild rafmagnsbíla í bílaeign tekjuhópa verði smám saman jafnari á næstu árum eftir því sem verð rafmagnsbíla lækkar áfram í samanburði við aðra bíla og framboð þeirra á endursölumarkaði eykst.

Þá liggur fyrir að mun fleiri rafmagnsbílar og tengiltvinnbílar eru á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni í hlutfalli við íbúafjölda. Í frumvarpinu er jafnframt að finna dreifingu á meðalakstri eftir póstnúmerum. Af þeirri dreifingu má sjá að árlegur meðalakstur bifreiða er ámóta mikill um allt land en tiltölulega lítill munur er á meðalakstri í nærumhverfi höfuðborgarsvæðisins, akstri á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landsbyggðinni. Kílómetragjald felur því ekki í sér eðlisbreytingu á núverandi kerfi. Þeir sem hafa hingað til keyrt mest hafa greitt mest af eldsneytisvörugjöldum.

Jafnframt ber að hafa í huga að þrátt fyrir að kílómetragjald verði m.a. lagt á akstur rafmagnsbifreiða samkvæmt frumvarpinu mun árlegur rekstrarkostnaður þeirra eftir sem áður vera mun lægri en sambærilegra bensínbifreiða þegar tekið er tillit til meðaleyðslu líkt og fram kemur í frumvarpinu. Það sem skiptir hér máli er að hvati einstaklinga til orkuskipta í vegasamgöngum verður áfram ríkur með tilliti til rekstrarkostnaðar bifreiða.

Loks er ánægjulegt að nefna að stjórnvöld hafa nú opnað upplýsinga- og kynningarsíðu fyrir almenning bæði vegna frumvarpsins og framtíðarsýnar stjórnvalda í þessum efnum. Á vefsíðunni má finna ítarlegar upplýsingar um forsendur og nauðsyn breyttrar tekjuöflunar ríkissjóðs með upptöku kílómetragjalds, auk þess sem finna má spurningar og svör undir liðnum Spurt og svarað á vefslóðinni vegirokkarallra.is.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari.