kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.
Forseti. Það er tvennt. Annars vegar það sem hæstv. ráðherra nefndi í framsöguræðu sinni, að þarnæst þegar tekið hefur verið tillit til tengiltvinnbifreiða líka — vantar það þá ekki fyrir allar aðrar bifreiðar, líka bensín- og dísilbifreiðar, þegar í rauninni eldsneytisgjaldið fellur út og bara kílómetragjald kemur í staðinn? Markmiðið er væntanlega að fella út öll þessi aukagjöld sem eru núna á bensíndælunni.
Hitt er að nú er verið að fella líka niður þessar ívilnanir sem hafa verið allt upp í milljón fyrir rafmagnsbíla sem þýðir í rauninni að rekstrarkostnaður verður meiri. Það að kaupa og reka bílinn, fjármagnskostnaðurinn sem því fylgir o.s.frv., gerir það að verkum, af því að rafmagnsbílar eru dýrari, að rekstur þeirra verður dýrari ef tekið er tillit til heildarverðs bílanna. Eitthvað gæti þó komið á móti. Það eiga að koma einhverjar mótvægisaðgerðir í gegnum Orkusjóð en það er ekki búið að kynna þær enn þá og við áttum okkur ekki alveg á því hvernig niðurstaðan, rekstrarleg niðurstaða, fyrir rafbílana verður fyrr en það gerist. Það gæti gert það að verkum að við glutrum niður þeim orkuskiptum sem hafa náðst og við viljum reyna að ná sem fyrst til að ná öðrum markmiðum, loftslagsmarkmiðum.
Það væri vel þegið ef ráðherra gæti aðeins kynnti okkur hvernig framvinda þess sem kemur í staðinn fyrir þær niðurgreiðslur sem hafa verið á öðrum gjöldum en bara kílómetragjaldinu og bensíngjaldinu gagnvart rafbílum, til að við áttum okkur betur á stöðunni varðandi heildarkostnað þess að eiga rafbíl á móti því að eiga bensínbíl.