154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[17:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það verður sem sagt sama kílómetragjald á alla árið 2025 ef allt gengur eftir og svo bætist bara við kolefnisgjaldið og olíu- og vörugjöld lækka verulega eða falla niður. En ég er sammála hv. þingmanni í því að það þarf auðvitað að vera trúverðugt plan til að ná settum markmiðum. Við höfum með mjög öflugum hætti stutt við breytta neysluhegðun. Ég veit að það er verið að kortleggja nákvæmlega hvar við getum helst náð árangri til að standa við okkar skuldbindingar en þegar kemur að orkuskiptum og því að minnka hlut jarðefnaeldsneytis, og vonandi þurfum við ekki að nota það lengur, þá stendur það ekki og fellur með okkur heldur ákveðinni tækniþróun í útlöndum eða í framleiðslu á vörum, tækjum eða tækni. Við erum háð því hvað gerist annars staðar og hvenær við getum tekið það upp hér. Það er ekki bara skynsamlegt til þess að minnka losun og bæta loftgæði heldur er bara í mínum huga frekar svona efnahagslega skynsamlegt að geta hætt að nýta u.þ.b. 100 milljarða í gjaldeyri sem við notum til að kaupa olíu frá útlöndum og nota í eitthvað annað (Gripið fram í: Heyr, heyr.)og nota vöru sem við framleiðum sjálf hér, sem er bæði grænni og kallar ekki á útstreymi á gjaldeyri og því geta fylgt verðmætaskapandi störf og frekari tækifæri fyrir okkur hér.

En þetta er gríðarlega stórt verkefni og markmiðið er gríðarlega metnaðarfullt og ég vonast til þess að við séum raunsæ í því, bæði hvað er raunhæft út frá tækni en við þurfum líka að hugsa um hversu miklu við erum tilbúin að kosta til þess að vera t.d. alveg fremst (Forseti hringir.) ef síðan til að mynda 450 milljóna manna Evrópusambandið ætlar að vera rétt á eftir. Það þarf líka að horfa á það í þessu samhengi. En ef ég man rétt (Forseti hringir.) þá er aðgerðaáætlun um loftslags- og orkumálin á döfinni rétt eftir áramót.

(Forseti (ÁsF): Ég minni hæstv. ráðherra á tímann.)