154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

507. mál
[17:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hér er verið að leggja til að innleiða breytingu sem felur það í sér í raun og veru að þeir sem nota samgöngukerfið, vegakerfið, komi til með að greiða fyrir það, þeir borgi sem noti, eins og sagt var hér. Þetta er náttúrlega mikil breyting en það er jafnframt mikilvægt að í þeirri vinnu sem fram undan er í þinginu, nefndarvinnunni, verði farið vel yfir athugasemdir sem hafa borist. Ég vil sérstaklega nefna hér umsögn frá Byggðastofnun sem sendi inn umsögn varðandi fjárlagafrumvarpið fyrir yfirstandandi ár. Þar kemur fram af hálfu Byggðastofnunar:

„Víða utan stærstu þjónustukjarna þurfa íbúar að ferðast um lengri veg til að sækja atvinnu og ýmis konar þjónustu. Hafa þarf það í huga við endurskoðun gjaldtöku af ökutækjum að óvíða eru almenningssamgöngur á þessum svæðum með þeim hætti að hægt sé að nota þær til daglegra ferða og því þurfa íbúar að reiða sig á einkabílinn. Tryggja þarf jafnræði í gjaldtöku þannig að breytingin komi ekki harðar niður á dreifbýlum svæðum og að hækkanir verði hóflegar þannig að þær vinni ekki gegn áherslu byggðaáætlunar um eflingu atvinnu- og þjónustusóknarsvæða.“

Þetta er það inntak sem ég vildi aðeins koma inn á í minni ræðu. Það má ekki fara svo að frumvarpið leggi sérstakar byrðar á þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og greiðsluþátttaka þeirra sem búa á landsbyggðinni má ekki verða of há miðað við þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Ég óttast svolítið að þetta geti haft neikvæð áhrif á búsetuskilyrði á landsbyggðinni og þetta er það sem nefndin þarf að fara vel yfir. Ég óttast pínulítið að áhrifin gætu verið meiri heldur en kemur fram í greinargerðinni. Það mætti í raun og veru, herra forseti, rökstyðja betur það sem lýtur að þessu jafnræði í frumvarpinu. Það má heldur ekki verða þannig, verði frumvarpið að lögum, að þetta hvetji fólk beinlínis til þess að flytja til höfuðborgarsvæðisins. Það er alveg ljóst að þeir sem aka mikið og sérstaklega þeir sem búa nálægt höfuðborgarsvæðinu, eins og á Suðurnesjum, Suðurlandi, Akranesi og í Borgarnesi, koma til með að borga meira og sérstaklega þeir sem sækja hér vinnu og aka daglega. Það verður að hafa það í huga að frumvarpið getur haft mikil áhrif á daglegt líf þeirra sem búa á landsbyggðinni og, eins og ég nefndi, starfa eða sækja þjónustu eða nám í höfuðborginni. Það kemur ekki fram hversu stórt atvinnusvæðið er og hversu samofið það er að vinna fjarri heimili sínu og hve mikill akstur úr og í vinnu er. Það er viðbúið að frumvarpið geti haft margfeldisáhrif fyrir þá sem búa í nútímasamfélagi sem felst í daglegri þátttöku í öllu því sem á sér stað, ef svo má að orði komast, atvinnu og frístundum. Hins vegar eru áhrif gjaldsins á þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu minni.

Í nágrannalöndum okkar eins og í Danmörku er að hluta brugðist við þessu ójafnræði sem myndast þegar fólk þarf að sækja vinnu um langan veg, vegna kostnaðar til og frá vinnu, þar er sem sagt skattfrádráttur í boði fyrir þá sem þurfa að sækja vinnu um langan veg. Það sama er í Noregi, þar er einmitt reiknaður skattafsláttur til og frá vinnu og þetta er eitthvað sem mér finnst að nefndin ætti að skoða. Þótt það sé ekki beint hennar verksvið í vinnu við þetta frumvarp þá skiptir þetta máli í þessu samhengi.

Svo er í greinargerðinni svolítið sérstök setning eða yfirlýsing um að kílómetragjaldið hvetji til aukinnar vitundar um akstur og geti þannig dregið úr umferð. Jú, jú, vissulega hvetur það til þessarar auknu vitundar en mér finnst þetta samt ekki alveg eiga við vegna þess að þetta hefur meiri áhrif á þá sem eru að sækja vinnu um langan veg, eins og ég hef komið hér inn á. Svo eru það þeir sem hafa valið að búa t.d. í nágrannabyggðarlögum á höfuðborgarsvæðinu, núna standa menn kannski frammi fyrir því að það hefur aukinn kostnað í för með sér. Vissulega er húsnæði ódýrara og það er náttúrlega jákvætt fyrir þá sem kannski þurfa að sækja vinnu um langan veg, það er þá minni kostnaður þeim megin. En að sama skapi, ef aksturinn er mikill á mánuði þá er þetta fljótt að koma inn.

Ég vildi einnig nefna að þeir sem hafa í gegnum árin þurft að aka langt til vinnu eða náms hafa náttúrlega þurft að greiða hlutfallslega meira en hinir sem búa stutt frá allri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Við þurfum bara að nálgast þetta úrlausnarefni heildstætt, skoða alla þessa þætti sem ég hef m.a. nefnt hér og fara nákvæmlega yfir það hvaða áhrif þessi gjaldtaka mun hafa á daglegt líf landsmanna og sérstaklega þá sem eru búsettir fyrir utan höfuðborgarsvæðið og ekki síst á landsbyggðinni og skoða hvort það sé jafnvel hægt að fara einhverjar einfaldari leiðir. Það er líka atriði í mínum huga að skoða hvort það sé hægt að setja bara á fast gjald. Fyrir þá sem aka mikið getur það skipt verulegu máli. Þetta var gert á sínum tíma, það var hægt að velja um greiðslu ársgjalds af notkun dísilbifreiða í stað kílómetragjalds og einnig mætti taka tillit til þyngdar og eyðslu ökutækis o.s.frv. Ég held að þetta gæti verið ákveðin leið til að jafna það sem virðist blasa við, að þeir sem sækja vinnu um langan veg komi til með að þurfa að borga hærri upphæð en þeir hafa gert. En alla vega held ég að það sé vel þess virði að skoða fast gjald.

Það er náttúrlega áhugavert að skoða í samanburði hvernig stuðlað er að aukinni notkun hreinorkubifreiða í öðrum löndum. Ég þekki það ekki hvort kílómetragjald sé notað víða erlendis en það er í mínum huga mikilvægt að við skoðum framkvæmdina í kringum okkur og þarna nefndi ég t.d. Danmörku og Noreg þegar kemur að skattafslætti sem væri náttúrlega sjálfsögðu mikilvægt að vita hvort hentaði okkur.

Að lokum, herra forseti, þá vona ég að þetta mál fái mikilvæga og góða umfjöllun í nefndinni og að það verði horft í öll þessi sjónarmið. Það eiga náttúrlega eftir að koma umsagnir og ég nefndi þessa umsögn frá Byggðastofnun sem hefur smá áhyggjur af því að þetta geti haft áhrif á landsbyggðina. Þetta þarf að fara ofan í saumana á að mínu mati í nefndarvinnunni, að sú hætta sé ekki fyrir hendi að þessi breyting, eins og lagt er hér upp með, hafi neikvæð áhrif á búsetu á landsbyggðinni. Það má ekki fara svo. Ég held persónulega að það gæti verið góð lausn að hafa þetta hámarksgjald og vona að nefndin taki það til umfjöllunar og skoðunar í sinni vinnu sem fram undan er.